Trump tístir að vild í Kína

Trump er nú í heimsókn í Kína.
Trump er nú í heimsókn í Kína. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætlar ekki að draga úr Twitter-notkun sinni meðan á heimsókn hans í Kína stendur, þrátt fyrir að lokað sé fyrir samfélagsmiðilinn þar í landi. Trump kom til Kína í morgun, en heimsókn hans þangað er hluti af Asíuför sem staðið hefur yfir síðustu daga.

„Forsetinn mun tísta því sem hann vill,“ sagði starfsmaður Hvíta hússins við fjölmiðla skömmu áður en forsetaflugvélin lenti í Peking.

„Það er hans leið til að eiga bein samskipti við bandarísku þjóðina, svo hvers vegna ekki? Svo lengi sem hann kemst inn á Twitter-aðganginn sinn, en Twitter er bannað í Kína, ásamt Facebook og flestum öðrum samfélagsmiðlum.“

Starfsmaðurinn sagði Trump þó örugglega ekki verða í vandræðum með að komast á Twitter. „Við erum örugglega með búnað um borð í þessari flugvél sem auðveldar honum aðgang.“

Yfirvöld í Kína fylgjast grannt með netnotkun íbúa landsins og lokað hefur verið á síður eins og Twitter, Facebook og Google í nafni þjóðaröryggis.

Kínverjar geta átt yfir höfði sér sektir og jafnvel fangelsisvist verði þeir uppvísir að því að birta færslur á samfélagsmiðlum sem þykja neikvæðar í garð yfirvalda. Síðustu mánuði hafa yfirvöld hert bann við notkun ýmissa vefsíðna enn frekar með því að loka fyrir vinsælar slúður- og bloggsíður og síður sem auðvelda aðgengi að klámi.

Netnotendur geta hins vegar komist fram hjá þessum lokunum með því að hlaða niður ákveðnum hugbúnaði sem gerir fólki kleift að vafra um netið líkt og það væri að nota netþjón í öðru landi.

Erlendir ferðamenn geta einnig komist inn á lokaðar síður í gegnum snjallsíma ef þeir fara á netið í gegnum reikiþjónustu. Þannig er staðan að minnsta kosti núna, á meðan yfirvöld gefa leyfi fyrir því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert