53 farast í loftárás í Sýrlandi

Markaðurinn í bænum Atareb í Sýrlandi er í rúst eftir …
Markaðurinn í bænum Atareb í Sýrlandi er í rúst eftir árásina sem kostaði 53 hið minnsta lífið. AFP

53 hið minnsta fórust í loftárásum á markað í bænum Atareb, sem er á svæði uppreisnarmanna í Sýrlandi.

Sýrlensku mannréttindasamtökin  Syrian Observatory for Human Rights segja ekki vera á hreinu hvort sýrlenski stjórnarherinn eða rússneskir bandamenn þeirra hafi gert árásina. Samkvæmt upplýsingum frá hjálparsveitum á vettvangi eru börn meðal hinna látnu.

Árásin var gerð á bæ í Aleppo-héraði sem telst til þeirra svæða þar sem draga átti úr spennu og sem Rússar, Íranar og uppreisnarmenn Tyrkja komu á fót fyrr á þessu ári.

Syrian Observatory for Human Rights, sem fylgjast náið með stríðinu í Sýrlandi, segja þrjár árásir hafa verið gerðar á markaðinn í Atareb í dag og að fimm börn séu í hópi hinna látnu.

Fréttamaður hjá fréttavefnum Zaman Al Wasl, sem er á bandi uppreisnarliða, sagði á Twitter í dag að þrjár rússneskar herflugvélar hefðu skotið flugskeytum að markaðnum. Greinir BBC frá því að markaðurinn, sem á voru rúmlega 100 verslanir, sé nú í rúst.

Tugir þúsunda Sýrlendinga sem hrakist hafa frá heimilum sínum frá því að stríðið hófst 2011 hafa hafst við í Atareb.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert