Bandarískur fangi á flótta

Fyrir utan Kerobokan-fangelsið.
Fyrir utan Kerobokan-fangelsið. AFP

Bandarískur maður sem sat inni fyrir fíkniefnalagabrot á indónesísku eyjunni Bali flúði úr fangelsinu í morgun og er hans leitað.

Annar bandarískur fangi flúði einnig en sá náðist mjög fljót að sögn fangelsismálayfirvalda. Mennirnir flúðu úr hinu illræmda Kerobokan-fangelsi en fjölmargir útlendingar afplána þar fyrir fíkniefnalagabrot.

Mennirnir flúðu með því að saga gat á þak fangelsisins með járnsög. Ekki er vitað hvernig þeir urðu sér úti um járnsög í fangelsinu.

Að sögn yfirvalda er fangans, Chrishan Beasley sem er 32 ára gamall, leitað á eyjunni og dreifir lögreglan myndum af honum meðal vegfarenda. Beasley var handtekinn í ágúst fyrir að vera með fimm grömm af hassi í fórum sínum. Dómur er ekki fallinn í máli hans. Ekki er vitað hversu þungri refsingu hann átti von á en fá lönd heims eru með jafnþunga refsidóma í eiturlyfjamálum og Indónesía. Meðal annars er dauðarefsingu beitt í slíkum málum. 

Sá sem flúði með Beasley heitir Paul Anthony Hoffman og er 57 ára gamall. Hann náðist strax eftir að hafa klifrað yfir varnarvegg fangelsisins. Voru það almennir borgarar sem stöðvuðu hann en Chrishan, sem var á undan honum, náði að flýja á hlaupum. Hoffman afplánar 20 mánaða dóm fyrir að hafa rænt nokkrar matvöruverslanir á eyjunni.

Meðal fanga í Kerobokan eru félagar í Bali Nine en það er hópur sem ætlaði að smygla heróíni frá Bali til Ástralíu. Búið er að taka tvo félaga hópsins af lífi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert