Ræða umskurðarbann í Danmörku

Talsverðar líkur eru fyrir því að danska þingið taki á …
Talsverðar líkur eru fyrir því að danska þingið taki á dagskrá bann við umskurði drengja yngri en 18 ára. Ljósmynd/Folketinget

Undirskriftasöfnun þess efnis að banna skuli umskurð drengja yngri en 18 ára í Danmörku hefur nú náð yfir 50 þúsund undirskriftum sem hefur þær afleiðingar að danska þingið verður að taka afstöðu til þess hvort eigi að hleypa tillögunni á dagskrá þingsins. Þetta kemur fram á vef danska ríkisútvarpsins DR.

Umrædd tillaga hefur verið mjög umdeild í Danmörku sérstaklega þar sem því hefur verið haldið fram að slíkt bann gangi gegn trúarlegum réttindum minnihlutahópa, einkum gyðinga og múslíma.

Borgaratillagan um bann við umskurði ungra drengja hefur þó stuðning meðal heilbrigðisstarfsfólks í Danmörku, en danskir læknar hafa stutt sambærilegt frumvarp á Íslandi.

Yfir eitt þúsund danskir læknar sendu nefndarsviði Alþingis bréf þar sem hvatt var til þess að frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um 18 ára aldurstakmark á umskurði verði samþykkt.

Miklar deilur innan flokka um málið

Stærsti flokkurinn í ríkisstjórn Danmerkur, Venstre, hefur gefið það út að hann muni leggjast gegn tillögunni. Venstre er í ríkisstjórnarsamstarfi við íhaldsflokkinn og bandalag frjálslyndra, en samstarfsflokkarnir hafa ákveðið að taka ekki afstöðu og heimila þingmönnum sínum að fylgja eigin sannfæringu í málinu.

Stuðningsflokkur ríkisstjórnarinnar, Danski þjóðarflokkurinn, er í stefnuskrá sinni mótfallinn því að drengir séu umskornir á grundvelli trúar, en hefur ekki gefið út hvað flokkurinn muni gera komi málið til þingsins.

Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn er mótfallinn banni við umskurði drengja yngri en 18 ára. Flokkur sósíalista og Enhedslisten eru hinsvegar sammála því að slíku banni verði komið á.

Ekki sjálfsagt að málið fari á dagskrá

Í Danmörku geta þeir sem hafa kosningarétt í þingkosningum formlega lagt fram svokallaðar borgaratillögur á opinberum vef. Frá því að tillaga að frumvarpi er lögð fram á vefnum hafa þeir sem standa að tillögunni 180 daga til þess að safna 50 þúsund undirskriftum og er krafist rafrænna skilríkja til þess að skrifa undir.

Ef tillagan fær ekki 50 þúsund undirskriftir innan setts tímaramma fellur málið sjálfkrafa. Nú hefur hins vegar slík tillaga safnað nægilegum fjölda til þess að biðja þingið um formlega umfjöllun.

Margir danir hafa áhyggjur af því að aldurstakmark á trúarlegum …
Margir danir hafa áhyggjur af því að aldurstakmark á trúarlegum umskurði bitni á minnihlutahópum.

Þar sem skilyrði um fjölda undirskrifta hefur verið uppfyllt þarf þingið að taka afstöðu til þess hvort setja eigi samhljóðandi frumvarp á dagskrá. Til þess þarf einfaldan meirihluta á þingi. Hingað til hafa allar tillögur sem hafa náð 50 þúsund undirskriftum farið á dagskrá þingsins í formi frumvarps. Frumvörpunum hefur þó verið hafnað.

Ástæða þess að borgaratillögur hafa fengið brautargengi og komið á dagskrá og svo verið felldar, er að flokkar sem studdu að heimila borgaratillögur hafa heitið því að að taka öll mál á dagskrá sem uppfylla sett skilyrði jafnvel þótt viðkomandi flokkar kunna að vera efnislega andvígir þeim. Talsverðar líkur eru þess vegna á því að málið fái efnislega meðferð á danska þinginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert