Varar við ofbeldi ef repúblikanar tapa

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, varaði leiðtoga mótmælendakirkjunnar við því að ef repúblikanar missa meirihlutann í fulltrúadeildinni í komandi kosningum muni demókratar gera breytingar fljótt og af miklum ofsa, segir í frétt New York Times í gærkvöldi.

Trump átti fund með trúarleiðtogunum í Hvíta húsinu á mánudag og byggir frétt NYT á hljóðupptöku af fundinum. „Demókratar munu snúa öllu á hvolf sem við höfum áorkað og það verður gert hratt og með ofsa,“ sagði Trump. 

„Þegar þið lítið til Antifa-sam­tak­anna [sem berj­ast gegn fas­isma] og ef þið lítið til einhverra þessara hópa sjáið þið ofbeldisfullt fólk,“ sagði Trump. Þegar NYT hafði samband við talsmann Hvíta hússins, Hogan Gidley, neitaði hann að útskýra hvað forsetinn ætti við.

Þetta er hins vegar ekki í fyrsta skipti sem Trump varar við ofbeldi sem geti fylgt því ef hlutirnir fara ekki eins og hann vill. Til að mynda sagði hann í kosningabaráttunni 2016 að ef hann yrði ekki tilnefndur sem forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins væri hætta á að stuðningsmenn hans myndu bregðast við með ofbeldi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert