Interpol óskar svara frá Kína

Ekki tangur né tetur hefur sést af Hongwei síðan í …
Ekki tangur né tetur hefur sést af Hongwei síðan í september. AFP

Alþjóðalögreglan Interpol hefur óskað útskýringa frá kínverskum stjórnvöldum vegna hvarfs Meng Hongwei, forseta stofnunarinnar. 

„Interpol hefur í gegnum opinberar lögregluleiðir óskað útskýringa frá yfirvöldum í Kína á stöðunni varðandi forsetann Meng Hongwei,“ sagði Jurgen Stock, framkvæmdastjóri stofnunarinnar. „Framkvæmdastjórn Interpol hlakkar til að fá opinbert svar frá kínverskum yfirvöldum vegna áhyggja um velferð forsetans.“

Hongwei hefur nú bæst í hóp margra opinberra aðila, viðskiptajöfra og dægurstjarna sem hafa horfið í vikur eða mánuði í Kína. 

Hongwei gegnir einnig stöðu aðstoðarráðherra almannaöryggismála en samkvæmt nafnlausu heimildafólki AFP á Hongwei að hafa verið gripinn við komuna til landsins í Beijing.

Ekki er langt síðan að stofnað var embætti eftirlitsnefndar í Kína sem hefur víðtækar heimildir til að handsama og rannsaka ríkisstarfsmenn. Þrátt fyrir að samkvæmt lögum þurfi yfirvöld að upplýsa fjölskyldumeðlimi um varðhaldsvist eru gerðar undantekningar ef málin varða almannaöryggi, hryðjuverk eða hættu á að átt sé við sönnunargögn eða vitnaframburð. 

Ekki þykir ljóst af hverju Meng, fyrsti kínverski forseti Interpol, myndi þurfa að sæta rannsókn kínverskra stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert