Fan Bingbing: stórstjarnan sem hvarf

Við fyrstu sýn virðist Fan Bingbing hreinlega hafa gufað upp, …
Við fyrstu sýn virðist Fan Bingbing hreinlega hafa gufað upp, sporlaust. Það ætti að vera ógerlegt í ljósi þess að Fan er bæði ein frægasta leikkona Kína og sú hæstlaunaða að auki. AFP

36 ára afmæli leikkonunnar Fan Bingbing var draumi líkast. Fjölskylda hennar og vinir fögnuðu henni yfir dýrðlegum málsverði þar sem kærasti hennar til tveggja ára, Li Chen, bað hana um að giftast sér. Seinna um kvöldið vann hún hinn eftirsótta Gullna hana, jafngildi Óskarsverðlauna í Kína, fyrir leik sinn í kvikmyndinni I am not Madam Bovary.

„Ég held að líf mitt sé fullkomið,“ skrifaði Fan á samfélagsmiðilinn Weibo í kjölfarið, þar sem hún er með 62 milljónir fylgjenda.

„Ég vil ekki stjörnurnar á himninum, ég vil bara upplifa gjafir jarðarinnar! Ég er mjög hamingjusöm! Og mjög heppin! Takk öll fyrir að elska mig!“

Síðan þá er liðið ár. Fan varð 37 ára 16. september síðastliðinn en dagurinn leið án opinberra hátíðarhalda og með sárafáum hamingjuóskum nema frá aðdáendum. Margir þeirra gripu andann á lofti þegar hún virtist hafa skráð sig inn á Weibo en seinna var færslunni, sem líklega var sjálfvirk, eytt. Fan hafði þá verið óvirk á miðlinum frá 23. júlí. Hún kom síðast fram opinberlega 1. júlí þegar hún heimsótti barnaspítala í Shanghai. Á umboðsskrifsstofunni hennar í Peking eru dyrnar læstar og ljósin slökkt. Dagatal við hlið veggspjalda úr kvikmyndum leikkonunnar sýnir júlímánuð.

Fan Bingbing er horfin.

Við fyrstu sýn virðist hún hreinlega hafa gufað upp, sporlaust. Það ætti að vera ógerlegt í ljósi þess að Fan er bæði ein frægasta leikkona Kína og sú hæstlaunaða að auki. En þegar betur er að gáð eru teikn á lofti um að velgengni hennar og sýnileiki séu einmitt það sem varð henni að falli.

Li Chen og Fan Bingbing á forsíðu kínverska Cosmopolitan.
Li Chen og Fan Bingbing á forsíðu kínverska Cosmopolitan.

Kenningarnar um hvarf Fan Bingbing eru af ýmsum toga en flestar snúa þær á einhvern hátt að yfirvöldum í Kína. Hún er sögð í felum í Los Angeles, þar sem hún mun hafa sótt um pólitískt hæli. Hún er sögð hafa átt í tygjum við varaforseta Kína, Wan Qishan og að hvarfið snúist um aðila innan flokksins sem vildu koma á hann höggi. Vinsælasta kenningin, og sú sem þykir sennilegust, snýr hinsvegar að skattamálum hennar.

Í maímánuði birti spjallþáttastjórnandinn Cui Yongyuan myndir af tveimur samningum sem hann gaf í skyn að væru tvær útgáfur af launasamningi Fan fyrir framhald kvikmyndarinnar Cell Phone. Önnur útgáfan, sú opinbera, sýndi mun lægri upphæð en sú sem Cui sagði raunverulega samninginn. Slíkir samningar, kallaðir „yinyang-samningar“ vegna tvíþætts eðlis síns, munu algengir innan kvikmyndariðnaðarins í Kína og ætlaðir til skattaundanskota.

Málið vakti mikla reiði meðal almennings og flokksmanna kommúnistaflokksins.

Cui baðst fljótlega afsökunar. Svo virðist sem hann hafi ekki ætlað sér að varpa kastljósinu á Fan heldur fremur á leikstjóra Cell Phone, Feng Xiaogang. Myndin segir frá frægum þáttastjórnanda sem á í ástarsambandi við aðstoðarkonu sína en Cui segir sláandi en þó ónákvæm líkindi milli söguþráðarins og eigin ferils og hefur sakað Feng um ærumeiðingar.

Öllum ummerkjum eytt

Hvað svo sem Cui ætlaði sér var skaðinn skeður fyrir Fan. Framleiðslufyrirtæki hennar, sem hefur neitað að gefa nokkrar upplýsingar um hvar hún er niður komin, neitaði ásökununum í júní. Í sama mánuði tilkynntu yfirvöld að launaþaki yrði komið á fyrir leikara. Þó að Fan væri ekki nefnd á nafn í yfirlýsingunni, þar sem skemmtanaiðnaðurinn var gagnrýndur fyrir að stuðla að „peningadýrkun“ ungra Kínverja, virtist ljóst hvaðan ákvörðunin var komin.

Sem áður segir, hefur ekkert spurst til Fan frá því í júlí en nýlega sást til unnusta hennar án trúlofunarhrings. Snemma í september birtist svo áhugaverð grein á vefsíðu ríkisrekna fjölmiðilsins Securities Daily.

Í greininni stóð að skattayfirvöld hefðu sent framleiðslufyrirtæki hennar orðsendingu sem sagði hana í haldi vegna rannsóknar og gaf í skyn að hún hefði játað sök sína. Grein Securities Daily var fljótlega eytt af vefsíðu miðilsins og samkvæmt The Guardian voru allar vísanir í hana þurrkaðar út af kínverskum samfélagsmiðlum ásamt nafni Fan.

„Skilaboðin eru skýr: enginn er öruggur,“ sagði Stanley Rosen, prófessor við Háskóla Suður-Kaliforníu og sérfræðingur um kínverska kvikmyndaiðnaðinn, í viðtali um efnið við The Guardian.

„Grunntilgangurinn er að ógna frægu fólki með mikið fylgi svo það verði ekki of sjálfstætt og verði of sterk rödd hvað varðar mikilvæg opinber málefni.“

Fan Bingbing var fimmta hæst launaða leikkona heims í fyrra, …
Fan Bingbing var fimmta hæst launaða leikkona heims í fyrra, á milli Jennifer Aniston og Charlize Theron. AFP

Fyrirbyggjandi kjúklingamorð

Í greinum og viðtölum við sérfræðinga í kínverska skemmtanaiðnaðinum um hvarf Fan kemur sama máltækið upp aftur og aftur: Að drepa kjúklinginn til að ógna öpunum.

Í því samhengi er Fan kjúklingurinn, sú sem flaug of hátt og á að vera hinum stjörnunum víti til varnaðar. Sú taktík er sannarlega ekki ný af nálinni hjá kínverskum yfirvöldum, sem láta lögfræðinga, aktívista og fleiri reglulega hverfa vegna háttalags sem ekki fellur innan flokkslínanna. Hinsvegar hefur enginn af félagslegri stærðargráðu Fan áður orðið henni að bráð.

„Að refsa Fan Bingbing er að drepa kjúklinginn til að hræða apana. En hvarf hennar lætur fólki líða óþægilega. Af hverju fylgja [yfirvöld] ekki réttarreglum og láta fólk vita hvað gengur á?“ sagði sagnfræðingurinn Zhang Lifan í viðtali við The Guardian. Óþægindi þau nægi þó ekki til uppreisnar.

„Enginn hefur stigið fram til að tala máli Fan Bingbing. Það sýnir að [pólitísk] staða kvikmyndaiðnaðarins er veik. Hann hefur ekkert vald.“

Í frægri ræðu árið 2014 sagði forseti landsins, Xi Jinping, að félagslegt hlutverk lista væri uppfyllt þegar „marxískri sýn á list og menningu“ með „fólkið í fyrirrúmi“ væri kirfilega tryggð. Hann hefur óbeit á glamúr og í ræðunni gagnrýndi hann listamenn sem „hafa smám saman breytt verkum sínum í gróðavélar eða í alsælupillur til holdlegrar örvunar“.

Iðnaðurinn beislaður

Þegar Xi komst til valda árið 2012 höfðu miðasölutekjur vaxið um 31 prósent milli ára og gert Kína að öðrum stærsta kvikmyndamarkaði heims. Hollywoodmyndir voru enn vinsælastar meðal landsmanna en í fyrsta skipti ógnaði innlend framleiðsla þeim sessi.

Flestir þjóðarleiðtogar myndu eflaust hreykja sér af þeim árangri en fyrir Xi og félögum var glysið úr takti við hugmyndafræði ríkisins, auk þess sem flokkurinn hafnar allri samkeppni um hylli almennings. Því hefur hann tekið til við að herða ólina.

Árið 2016 skipaði æðsta fjölmiðlanefnd Kína sjónvarpsstöðvum að forðast að vefja frægt fólk og ríkidæmi dýrðarljóma. Síðasta sumar beindi ríkisstjórnin því svo til vefmiðla að „halda aftur af upphafningu hneykslismála og hversdagslífs frægs fólks, æsifrétta um eftirtektarverða neyslu þeirra og smekkleysi.“

Þá voru einnig sett ný lög um að útgefið efni skemmtanaiðnaðarins skuli „halda á lofti grunngildum sósíalismans“.

Aðdáendur Fan Bingbing kalla sig Bingbang, sem er orðaleikur að …
Aðdáendur Fan Bingbing kalla sig Bingbang, sem er orðaleikur að eiginnafni hennar og þýðir frostpinnar. AFP

Bangsímon bannaður

Þrátt fyrir þessi höft er búist við að kínverski kvikmyndamarkaðurinn verði sá stærsti í heimi fyrir 2020 hvað varðar miðasölutekjur, samkvæmt skýrslu Deloitte frá 2017. Framleiðendur í Hollywood hafa sannarlega tekið eftir sveiflunni og koma í auknum mæli fyrir duldum auglýsingum frá kínverskum fyrirtækjum í myndum sínum. Þar að auki nýta þeir aðrar leiðir svo sem kínverska leikara, lengri bílaeltingaleiki og slagsmálasenur til að ná til kínverskra áhorfenda.

En stundum kemur pólitíkin kvikmyndum um koll án þess að framleiðendur fái rönd við reist.

Í ágúst greindi Hollywood Reporter frá því að kvikmyndinni Cristopher Robin, leikinni útgáfu Disney um ævintýri Bangsímons, hefði verið neitað um útgáfu í Kína. Bangsinn góðlegi hafði nefnilega nýlega dúkkað upp á samfélagsmiðlum sem tákn um andstöðu gegn Xi og ríkisstjórn hans.

Í sumar bar þáttastjórnandinn John Oliver útlit Xi og Bangsímons saman og var í kjölfarið þurrkaður út af samfélagsmiðlum í Kína auk þess sem lokað var á aðgengi að vefsíðu HBO. Þá hefur stórsmellurinn Filthy Rich Asians ekki enn fengið útgáfuleyfi og alls óljóst er hvort svo verði enda hafa háttsettir flokksmeðlimir úthúðað stjörnum hennar fyrir að upphefja ríkmannlegan lífstíl.

Ef Fan snýr aftur

Aðeins 34 erlendar kvikmyndir fá sýningarrétt í Kína ár hvert. Vilji alþjóðlegir framleiðendur hljóta náð fyrir augum Kínverja þurfa þeir að velja myndir sem falla að grunnskilaboðum kommúnistaflokksins og geta ekki verið notaðar til að lítillækka forsvarsmenn hans.

Því má þykja líklegt að næsta stóra alþjóðlega verkefni Fan Bingbing muni renna henni úr greipum, jafnvel þótt hún dúkki aftur upp. Ef Fan endurspeglar ekki gildi flokksins verður myndin seint leyfð í landinu og ólíklegt er að framleiðendur séu tilbúnir að missa svo stóran markað. Kvikmyndin, sem segir frá fimm kvennjósnurum frá öllum heimshornum og ber titilinn 355, seldist eins og heitar lummur á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

Þær Jessica Chastain, Penélope Cruz, Marion Cotillard og Lupita Nyong'o fara með aðalhlutverkin ásamt Fan. Hún hefur nægan tíma til að snúa aftur/vera sleppt úr haldi fyrir tökur en þær eiga ekki að hefjast fyrr en sumarið 2019.

Hvort hún hafi nægan tíma til að afmá syndir sínar (hverjar svo sem þær kunna að vera) gegn kínverskum yfirvöldum (sé hún í haldi þeirra), er síðan allt önnur spurning.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert