Valdataflið í Washington ræðst á þriðjudaginn

Donald Trump á kosningaviðburði í Flórida.
Donald Trump á kosningaviðburði í Flórida. AFP

Á þriðjudaginn í næstu viku ganga Bandaríkjamenn að kjörborðinu. Kosið verður m.a. um 35 þingsæti í öldungadeildinni, 39 ríkisstjórastóla, öll 435 þingsætin í fulltrúadeildinni og fjölmarga bæjar- og héraðsstjórastóla. Augu flestra verða hins vegar á fulltrúadeildinni á þriðjudaginn en samkvæmt könnunum er þar að finna stærsta möguleika demókrata til að ná einhverjum völdum í þinginu að nýju. Talnasnillingum vestanhafs brást þó heldur betur bogalistin í forsetakosningunum 2016 og því má ekki útiloka óvæntar niðurstöður.

Áhugi kjósenda er síðan í sögulegu hámarki. Í sameiginlegri könnun NBC News og The Wall Street Journal sögðust 65% svarenda hafa mikinn áhuga á kosningunum í ár. Slíkar tölur eru sjaldséðar en áður var áhugi mestur árið 2006 þegar 61% svarenda höfðu mikinn áhuga á þingkosningunum. Andstaða við Íraksstríð og óvinsældir George W. Bush forseta áttu þar stóran þátt í að demókratar unnu báðar deildir þingsins sem og fjölda ríkisstjórastóla.

Þingsæti í fulltrúadeildinni sem óvissa ríkir um.
Þingsæti í fulltrúadeildinni sem óvissa ríkir um. Heimild: Cook Political Report

23 þingsæti til að velta húsinu

Samkvæmt pólitíska gagnafyrirtækinu TargetSmart hafði 8,1 milljón kjósenda kosið utankjörfundar þegar tvær vikur voru til kosninga. Það eru um 200 þúsund fleiri en höfðu kosið á sama tíma fyrir forsetakosningarnar 2016. Samkvæmt TargetSmart hafa Georgía, Tennessee og Texas séð meira en 500.000 fleiri utankjörfundaatkvæði hvor í ár en í þingkosningunum 2014. Ómögulegt er að segja hvaða áhrif þessi atkvæðafjöldi mun hafa en allt stefnir í að erfitt verði að kenna lélegri kjörsókn um niðurstöðu þingkosninganna. Kjörsókn í Bandaríkjunum er mun minni en við þekkjum á Íslandi en að meðaltali kjósa um 60% þeirra sem eru á kjörskrá í forsetakosningum og um 40% í þingkosningum.

Í fulltrúadeildinni eru 435 þingsæti og þarf því 218 þingsæti til að ná meirihluta. Repúblikanaflokkurinn er með meirihluta með alls 235 þingmenn á móti 193 þingmönnum demókrata. Samkvæmt Cook Political Report eru ríkir óvissa um 75 þingsæti. Hafa ber í huga að þessi tala getur tekið breytingum en það þýðir að rúmlega einn sjötti Bandaríkjamanna mun hafa úrslitavald um hverjir fara með meirihluta í fulltrúadeildinni. Þingmenn repúblikana sitja í 70 af þessum 75 þingsætum en demókratar þurfa einungis að vinna 23 sæti til að ná meirihluta.

Afskastalítið þing almúgans

Það er oft talað um fulltrúadeildina sem „hús fólksins“ í Bandaríkjunum. Sögulega er hún mjög afkastalítil þingdeild enda báru feður stjórnarskrár Bandaríkjanna ekki mikið traust til almúgans. Þá ber að hafa í huga að á síðustu árum hafa bæði þing verið sögulega afkastalítil og því ekki jafnmikill munur á þeim fjölda lagafrumvarpa sem verða að lögum í deildunum tveimur.

Þingmenn fulltrúadeildarinnar þurfa að sæta endurkjöri á tveggja ári fresti og er neðri þingdeildin því líklegri til að taka þátt í samfélagslegum sveiflum. Sást það vel með teboðshreyfingunni í tíð Obama. Fjöldi þingsæta í fulltrúadeildinni skiptist oftast mjög ójafnt milli flokka. Þar sem einungis þarf hreinan meirihluta til að samþykkja lagafrumvarp, sem veldur þetta því að lítil þörf er á samvinnu flokkanna hverju sinni. Stærsta valdið sem fulltrúadeildin fer með er fjárveitingavald fyrir ríkið. Í daglegu tali í Bandaríkjunum er þetta oft nefnt „valdið yfir veskinu“ sem sögulega hefur valdið pólitískum átökum milli forseta Bandaríkjanna og fulltrúadeildarinnar.

Á þessum tímapunkti eru demókratar taldir líklegir til að vinna allt á bilinu frá 20 til 40 þingsæti í fulltrúadeildinni og því skiptir síðasta vikan miklu máli.

Feminísk flughetja í 6. kjördæmi Kentucky

Fjölmiðlar vestanhafs tala mikið um að árið 2018 verði ár konunnar en 256 konur eru á kjörseðlinum á þriðjudaginn, 234 sækjast eftir þingsæti í fulltrúadeildinni og 22 eftir sæti í öldungadeildinni. Árið 1992 var einnig nefnt ár konunnar í Bandaríkjunum, þegar fjöldi kvenna fór í framboð í kjölfar framburðar Anitu Hill um kynferðislega áreitni fyrir framan dómaranefnd öldungadeildarinnar. 

Í sjötta kjördæmi Kentucky, sem Trump vann með 15% árið 2016, er að finna frambjóðanda sem endurspeglar þessa sókn kvenna í ár, Amy McGrath.

Amy McGrath ásamt dóttur sinni að tala við fjölmiðla í …
Amy McGrath ásamt dóttur sinni að tala við fjölmiðla í Kentucky. Ljósmynd/Amy McGrath for Congress

Hún var fyrsta konan til að fljúga til orrustu á F-18-orrustuflugvél Bandaríkjahers. Flaug hún í alls 89 orrustur í Írak og Afganistan á 20 ára ferli sínum sem orrustuflugmaður. Hún vakti mikla athygli á landsvísu þegar hún tilkynnti framboð sitt með kosningaauglýsingunni „Told me“ þar sem hún fór yfir baráttu sína til þess að fá leyfi til að fá að fljúga í orrustur á stríðstímum.

Repúblikaninn og lögmaðurinn Andy Barr er sitjandi þingmaður kjördæmisins. Hann vann endurkjörið sitt árið 2016 með 20% en samkvæmt könnun sem Repúblikanaflokkurinn framkvæmdi leiðir Barr einungis með 2% og hefur könnunin 4% skekkjumörk. Samkvæmt könnun Demókrataflokksins leiðir McGrath með 7%, með 4,5% skekkjumörkum.

Fylgi McGrath hefur hins vegar dalað aðeins á lokasprettinum en hafsjó af neikvæðum auglýsingum um stuðning hennar við Barack Obama og Hillary Clinton hefur rignt yfir kjördæmið. Þá hefur það verið notað gegn henni í auglýsingum að hún lýsir sjálfri sér sem feminista en það situr ekki vel meðal íhaldssamra kjósenda í Kentucky. 

Sjötta kjördæmið inniheldur þekktar borgir eins og Lexington, Georgetown og Richmond. Kjördæmið er afar pólaskipt þar sem margir demókratar búa í Lexington og margir repúblikanar búa í Bluegrass-sýslunni á landsbyggðinni. Demókrötum hefur gengið ágætlega í kjördæminu gegnum tíðina. Árið 2010 var demókratinn Jim Gray kosinn borgarstjóri Lexington, fyrsti samkynhneigði maðurinn til að gegna þeirri stöðu. Demókratinn Ben Chandler var síðan þingmaður kjördæmisins frá 2004 til 2012, þegar hann tapaði fyrir Barr með naumindum. 

Sameiginleg skoðanakönnun The New York Times og Siena-háskólans segir að Barr leiði í kjördæminu með 1%. Það gæti því allt gerst í Kentucky.

Auglýsingaskilti Amy McGrath í Kentucky.
Auglýsingaskilti Amy McGrath í Kentucky. Ljósmynd/Amy McGrath for Congress

Stál í stál í 1. kjördæmi Wisconsin

Paul Ryan verður ekki valmöguleiki á kjörseðilinum í 1. kjördæmis Wisconsin-ríkis, í fyrsta sinn síðan 1998. Ryan, forseti þingdeildarinnar og fyrrverandi varaforsetaefni Mitt Romney 2012, ákvað óvænt að sækjast ekki eftir endurkjöri. Repúblikaninn Bryan Steil, fyrrverandi aðstoðarmaður Ryan í þinginu, og demókratinn og stálverkamaðurinn Randy Bryce berjast um þingsætið. Bryce náði athygli Bandaríkjamanna og undirritaðs sumarið 2017 þegar fyrsta kosningaauglýsingin hans fór víða á samfélagsmiðlum.

Í auglýsingunni sést hann vera að sjóða járn og býður m.a. Paul Ryan að skipta á störfum við sig. Í kjölfarið rigndi inn stuðningsyfirlýsingum og fjármunum til Bryce, m.a. frá Bernie Sanders. Bryce hefur hins vegar gengið brösuglega í fjölmiðlaviðtölum og sætt mikilli gagnrýni fyrir gömul lagabrot en hann hefur verið handtekinn níu sinnum, m.a. fyrir kannabisnotkun, akstur undir áhrifum og ógreiddar meðlagsgreiðslur.

Randy Bryce fyrir miðri mynd á kosningaviðburði demókata í Wisconsin. …
Randy Bryce fyrir miðri mynd á kosningaviðburði demókata í Wisconsin. Barack Obama, fyrrverandi forseti BNA, hefur stutt Bryce opinberlega. AFP

Þrýstiöfl hafa minnt kjósendur á þessa fortíð Bryce með daglegum neikvæðum auglýsingum. Bryce hlaut hins vegar 36.397 atkvæði í prófkjöri sínu en Steil hlaut 30.853. Hér þarf að hafa í huga að í Wisconsin eins og flestum ríkjum Bandaríkjanna eru prófkjör beggja flokka haldin saman en kjósendur velja flokk og frambjóðanda á kjörstað. 

Hið fallna vígi vinstrimanna

Til að skilja betur framboð Steil og Bryce þarf að skoða  pólítik í Wisconsin í sögulegu samhengi. Ríkið hefur um aldaraðir verið stærsta vígi vinstrimanna í Bandaríkjunum en er nú á krossgötum. Frjálshyggjumönnum eins og Paul Ryan og Scott Walker hefur vegnað vel í kosningum þar á síðustu árum og svo vann Trump ríkið mjög óvænt árið 2016.

Sterk verkalýðsfélög og ríkisstyrkt velferðarverkefni hafa hins vegar verið helgirit Wisconsin-manna og á sú arfleið undir högg að sækja. Iðnaður og stuðningur verkalýðsins skipti miklu máli í Wisconsin sem endurspeglast í kosningaauglýsingum og loforðum frambjóðenda.

Lýðfræði Wisconsin myndast að mörgu leyti með miklum fólksflutningum frá Skandinavíu, sér í lagi Noregi, í kringum 1840. Má segja að védísk helgibæn heimamanna finnist í orðum Edward G.Ryan, forseta Hæstaréttar Winsconsin, árið 1873, við útskrift laganema við Háskólann í Wisconsin. Þar bað hann nemendur um að svara þeirri spurningu hver skyldi ráða: Auðurinn eða maðurinn? Hvort skyldi leiða, fjármunir eða vitsmunir. Þessi tortyggni gegn viðskiptamönnum og auðvaldi hefur haldist sterk í ríkinu.

Robert M. La Follette, þingmaður og síðar ríkisstjóri Wisconsin, var meðal þeirra sem breytti þessari tortryggni gegn auðugum iðnrekendum í haldbæra löggjöf m.a. með lögum sem hömluðu fjárveitingar frá fyrirtækjum til frambjóðenda. Á 20. öldinni var háskólinn í Wisconsin einnig valdamikill og komu prófessorar skólans að gerð lagafrumvarpa. Það var þekkt sem „The Wisconsin Idea“ þar sem sett var siðferðisleg ábyrgð á háskólann til að þjóna öllum íbúum ríkisins.

Prófessorar háskólans sömdu m.a. bótafrumvarpið (e. workes compensation bill) sem varð að lögum 1911 í Wisconsin. Þá átti stór hluti af þeim lagasetningapakka sem hefur verið kallaður The New Deal undir Franklin D.  Roosevelt uppruna sinn í Wisconsin. Þar má nefna almannatryggingafrumvarpið (e. Social security act), sem skrifað var af prófessorum háskólans. Arkítektinn að Medicare, heilbrigðistryggingakerfi eldri borgara og öryrkja, Wilbur Cohen, er meðal fyrrverandi nemenda háskólans og svona mætti lengi telja.

Mætti líkja lagasetningu Wisconsin á 20. öldinni og áhrifum háskólans, sem verstu martröð íhaldsmannsins William F. Buckley Jr. sem sagði eftirminnilega  að hann treysti fremur fyrstu 2.000 einstaklingunum í símaskrá Boston en þeim 2.000 sem ynnu í Harvard, fyrir löggjafarvaldi.  

Þessi framfaraandi helst að mestu leyti óáreittur fram á sjöunda áratuginn. Það er þó vert að nefna að Joseph McCarthy var þingmaður Wisconsin meðan hann leiddi ofsóknir gegn kommúnistum í Bandaríkjunum við upphaf kalda stríðsins.         

Scott Walker á kosningaviðburði með Donald Trump Bandaríkjaforseta í Wisconsin.
Scott Walker á kosningaviðburði með Donald Trump Bandaríkjaforseta í Wisconsin. AFP


Það gerðist siðan óvænt árið 2010 að hinn strangtrúaði íhaldsmaður Scott Walker, prestssonur fæddur í Iowa, varð ríkisstjóri Wisconsin. Walker sækist eftir sínu þriðja kjörtímabili sem ríkisstjóri og er í hörðum ríkisstjóraslag við Tony Everts, frambjóðanda demókrata sem er einnig vert að fylgjast með.

Walker er fyrrverandi nemandi kaþólska/jesúista Marquette-háskólans í Winconsin en lauk ekki námi heldur kaus að vinna fyrir Rauða krossinn. Þrátt fyrir að hafa bara setið tvö kjörtímabil hefur Walker verið kjörinn þrisvar til ríkisstjóra en undirskriftasöfnun kjósenda árið 2011 var næg til að krefjast endurkosninga.

Reiði kjósenda kom í kjölfar þess að lagafrumvarpið Act 10. varð að lögum. Löggjöf sem m.a. skar niður mótframlög ríkisins í eftirlaunasjóði og heilbrigðistryggingar opinberra starfsmanna til að mæta 3,6 milljarða dala halla ríkissjóðs. Setti Walker einnig lög sem tóku af rétt verkalýðsins til að semja kjarasamninga sem ein heild. Hann hefur einnig komið í gegn löggjöf sem hefur veikt fjárhagsstöðu verkalýðsfélaga ríkisins og geta verkamenn nú valið að borga í verkalýðsfélag.

Scott Walker meðal kjósenda í Wisconsin í síðasta mánuði.
Scott Walker meðal kjósenda í Wisconsin í síðasta mánuði. AFP

Þessar ákvarðanir Walker kasta ákveðnum skugga á kosningar í ár. Ekki bara vegna þess að þær eru ástæðan fyrir því að stálverkamaðurinn Randy Bryce ákvað að henda sér í pólítík heldur sagði Obama í kosningaræðu árið 2007 að ef einhver myndi slá á rétt verkalýðsfélaga til að semja sem ein heild myndi hann „fara í þægilega  gönguskó“ og halda í mótmælagöngu með verkalýðnum.

Þegar kom að endurkjöri til ríkisstjóra árið 2012 sem snerist að öllu leyti um rétt verkalýðsfélaga til að semja um laun var Obama hvergi sjáanlegur. Stephanie Cutter sagði eftirminnilega í samtali við Politico árið 2012, þá aðstoðarkosningastjóri Obama, að þessi kosning „hefur ekkert að gera með Obama“. Þetta olli mikilli reiði meðal demókrata í Wisconsin, sem upplifðu sig eina á báti.
 

Vanræksla Demókrataflokksins á frambjóðendum sínum í Wisconsin var eitthvað sem Hillary Clinton vanmat stórlega árið 2016 er hún varð fyrsti forsetaframbjóðandinn síðan 1972 til þess að heimsækja ekki Wisconsin.

Stuðningur Clinton við fríverslunarsamninga eins og NAFTA, sem hafa átt sinn þátt í að gera iðnaðarbæi eins og Kenoshia og Racine, suður af Milwaukee, skuggan af sjálfum sér, á einnig stóran þátt.

Verkalýður Wisconsin studdi einnig Bernie Sanders í prófkjöri demókrata  enda er hann talinn vera „The Wisconsin Idea“ í mannsmynd. Andstaða Trump við NAFTA og loforð um að koma atvinnuhjólunum af stað á ný hitti í mark. Trump  vann ríkið eins og frægt er en fékk þó ekki fleiri atkvæði en Romney árið 2012. Demókratar skiluðu sér bara ekki á kjörstað í sama magni og áður og verður það vandamál Bryce á þriðjudaginn að reyna að virkja vinstrimenn að nýju í Wisconsin.

Steil leiðir í kjördæminu með allt á bilinu 4 til 7%. Fjáröflun Bryce hefur hins vegar gengið vel og má búast við því að hann gæti átt ágætan lokasprett. 



Flokksráð og fjármunir í 39. kjördæmi Kaliforníu

Kalifornía er mikilvægasta vígi demókrata í þingkosningunum í ár. Þessu fjölmennasta ríki Bandaríkjanna er skipt niður í 53 kjördæmi og hvert kjördæmi hefur einn þingmann í fulltrúadeildinni. Sjö sitjandi þingmenn repúblikana eru í kjördæmum sem Clinton vann árið 2016. 39. kjördæmið tekur til Orange County, þar á meðal fæðingarstaðar Nixons, Yorba Linda.

Repúblikaninn Ed Royce hefur verið þingmaður kjördæmisins síðustu ár en hann sækist ekki eftir endurkjöri. Baráttan stendur á milli demókratans Gil Cisneros, sem vann um 300 milljónir dala í lottóinu, og þingkonu kjördæmisins fyrir ríkisþingið, repúblikanans Young Kim.

Young Kim er frambjóðandi repúblikana í 39. kjördæmi Kalifornínu.
Young Kim er frambjóðandi repúblikana í 39. kjördæmi Kalifornínu. Ljósmynd/Wikmedia

Kjördæmið gæti gefið tóninn fyrir því hvort demókratar ná völdum í fulltrúadeildinni. Kosningahegðun kjördæmisins er repúblikönum í vil en óvinsældir Donald Trump Bandaríkjaforseta í kjördæminu gætu haft áhrif. Það gæti hins vegar verið að demókratar hafi framið pólitískt harakiri með afskiptum sínum af eigin prófkjöri. 

Í 39. kjördæmi Kaliforníu, sem og flestum kjördæmum í Bandaríkjunum, fara prófkjör fram með þeim hætti að efstu tveir frambjóðendur, óháð flokki, enda á kjörseðlinum. Mikil andstaða demókrata gegn Trump olli því að metfjöldi fólks fór í framboð í prófkjöri demókrata. Ótti við dreifingu atkvæða olli því að flokkurinn reyndi að hafa áhrif á prófkjör sín víðs vegar um landið. Framfarasinnaðir frambjóðendur hafa heldur ekki verið í náðinni hjá stjórnarmönnum flokksins. Í apríl á þessu ári lak hljóðupptaka af Steny Hoyer, einum af leiðtögum demókrata í fulltrúadeildinni, þar sem segir Levi Tillemann í Colorado að draga framboð sitt tilbaka.


Í prófkjöri demókrata í 39. kjördæmi var barnalæknirinn dr. Mai Khanh Tran, flóttamaður frá Víetnam, meðal þeirra sem var beðin um að draga framboð sitt til baka. Samkvæmt hefðbundinni visku ætti dr. Tran að vera allt sem demókrataflokkurinn vill í frambjóðanda. Hún er læknir, kona og innflytjandi sem hefur ótrúlega sögu að segja sem endurspeglar ameríska drauminn: Flóttamaður sem var bjargað sem barni með síðustu þyrlunum frá Víetnam undir lok stríðsins og endar sem efnaður læknir í Kaliforníu.

Mark Mckinnon, pólitískur fjölmiðlaráðgjafi til margra ára, sagði árið 2016 í viðtali við The New York Times að til að sigra kosningabaráttu þurfi frambjóðandi að hafa sögu að segja. Þetta er ástæðan fyrir að hafsjór af auglýsingum í ævisagnastíl birtist á skjám Bandaríkjamanna í kringum kosningar en dr. Tran hefur magnaða sögu að segja.

Kosningamaskína flokksins, Democratic Congressional Campaign Commitee (DCCC), hringdi í dr. Tran og bað hana um að draga framboð sitt til baka. „Hvernig dirfast þeir að biðja einhvern sem hefur verið í framboði í 6 mánuði, eina konan, eini læknirinn og eina móðirin, að draga framboð sitt til baka?“ sagði dr. Tran í samtali við The New York Times fyrr á þessu ári. Hún fékk einnig símtöl frá sitjandi þingmönnum um að hún ætti að draga framboð sitt til baka. Fjáröflun gekk illa eftir að hún var ekki í náðinni hjá flokknum og náði dr. Tran ekki að safna nægjanlegu fé til að vera samkeppnishæf. Hún dró sig þó ekki úr prófkjörinu en tapaði þar fyrir Mega Millions sigurvegaranum, Gil Cisneros. 

Cisneros vann í sjóhernum í 11 ár en eftir vinninginn í lottóinu hefur hann stutt rækilega við góðgerðarmál ásamt því að hafa gefið stjórnmálamönnum fé. Hann er fyrrverandi repúblikani, sem segist hafa kosið John McCain árið 2008 en styrkti framboð Obama fjárhagslega 2012. Hann hefur vægast sagt ómerkilega sögu að segja í samanburði við dr. Tran enda talar hann um þær lífslexíur sem hann lærði með því að labba upp stiga í kosningaauglýsingu sinni.



Dr. Tran hefur sagt að flokkurinn hafi bolað henni út ekki vegna þess að hún væri ekki góður frambjóðandi, eða ætti ekki hugsjónalega samleið með flokknum heldur vegna þess að Cisneros gæti kostað eigið framboð. 39. kjördæmi inniheldur Los Angeles, sem er dýrasti fjölmiðlamarkaður Bandaríkjanna. Demókratar vildu velta sitjandi þingmanni kjördæmisins Ed Royce og til þess þarf eyða miklum pening.

Um þriðjungur kjósenda kjördæmisins er af asískum uppruna og treystir Demókrataflokkurinn mikið á þau atkvæði. Nú er hins vegar Young Kim, kona af kóreskum uppruna, í framboði fyrir repúblikana og því eru atkvæði bandaríkjamanna af asískum uppruna alls ekki í öruggum höndum demókrata. 

Í samtali við MSNBC-fréttastöðina fyrr á árinu  sagði Young Kim að fólk ætti alls ekki að halda að allir þeir sem eru af asískum uppruna í kjördæminu myndu allir kjósa demókrata. 

Samkvæmt könnun The New York Times og Siena-háskólans frá 23. október munar 1% á milli Kim og Cisneros. Það verður því áhugavert að fylgjast með hvað gerist í þessu mikilvæga kjördæmi á þriðjudaginn. 

Fyrrverandi MMA-bardagakonan í 3. kjördæmi Kansas

Að lokum er rétt að nefna 3. kjördæmi Kansas. Þar er repúblikaninn Kevin Yoder sem er sitjandi þingmaður kjördæmisins að sækjast eftir endurkjöri. Hann náði kjöri í byltingu teboðshreyfingarinnar árið 2010 og sækist eftir endurkjöri í ár. Obama tapaði kjördæminu árið 2012 fyrir Mitt Romney með miklum mun en Hillary Clinton hafði betur gegn Trump með naumindum árið 2016. Yoder er yfirmaður fjárveitinganefndar fyrir öryggismál í fulltrúadeildinni. Hann hefur þannig fjárveitingavald til að hafna eða setja fé í hinn heimsfræga vegg við landamæra Mexikó. Hann er því augljóslega í miklum metum hjá Trump sem hefur gefið framboðinu hans fullan stuðning.

Demókratinn Sharice Davids, 38 ára lögmaður og fyrrverandi MMA-bardagakona, sækist hins vegar eftir þingsætinu. Hún er samkynhneigður frumbyggi og vann sterkan sigur á móti öflugum frambjóðendum í prófkjöri demókrata. The Washington Post telur líklegt að hún muni hafa betur í kjördæminu á meðan skoðanakönnun The New York Times og Siena-háskólans segir Davids vera með 48% stuðning á móti 39% stuðningi Yoder og þá eru 11% svarenda óákveðnir. Svarendur voru hins vegar afar fáir og því ber ekki að lesa of mikið í niðurstöðurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert