Í skjóli kirkjunnar

Hayarpi Tamrazyan og Warduhi.
Hayarpi Tamrazyan og Warduhi. AFP

Prestar við kirkju í Haag skutu skjólshúsi yfir armenska fjölskyldu sem var synjað um hæli af hollenskum stjórnvöldum og hafa þeir þjónað til altaris allan sólarhringinn frá 26. október þar sem aldagömul hefð er fyrir því í Hollandi að embættismenn megi ekki koma í opinberum erindagjörðum í kirkju á meðan guðþjónusta stendur yfir. 

Fjallað er um málið á vef Sky, BBC og Telegraph um helgina. Þar kemur fram að dagur 37 sé runnin upp en auk presta Betel-kirkjunnar hafa 450 prestar tekið þátt í guðþjónustunni úr ólíkum kirkjum til þess að koma í veg fyrir að Tamrazyan fjölskyldunni verði vísað úr landi. 

Tamrazyan fjölskyldan, hjón ásamt tveimur dætrum sínum og syni, hefur verið í Hollandi í tæp níu ár og á þeim tíma hefur mál þeirra og hælisumsókn farið víða í kerfinu. En í haust dæmdi æðsti dómstóll Hollands að þau ættu að snúa aftur til Armeníu.
Theo Hettema og Hayarpi Tamrazyan.
Theo Hettema og Hayarpi Tamrazyan. AFP
Að sögn Derk Stegeman sóknarprests við kirkjuna þá bankaði fjölskyldan á dyr kirkjunnar eina nóttina og báðu skelfingu lostin um hæli og vernd fyrir lögreglunni. 
Fjölskyldufaðirinn tók þátt í stjórnmálum í heimalandinu og flúði með fjölskylduna til Hollands vegna hótana sem honum bárust. Systurnar Hayarpi, sem er 21 og Warduhi, sem 19 ára og 15 ára gamall bróðir þeirra, Seyran, hafa gengið í skóla í Hollandi í tæp níu ár og óttast þau um framtíð sína ef þeim verður vísað úr landi.
Theo Hettema, sóknarnefndarformaður kirkjunnar, segir að það hafi ekki verið hægt að gera annað en að skjóta skjólshúsi yfir fjölskyldunnar. Starfsmenn kirkjunnar hafi álitið sem svo að þeim bæri skylda að vernda líf fjölskyldunnar.

Martine Goeman, sem er lögmaður samstakanna Defence For Children, segir að um 400 börn séu í svipaðri stöðu í Hollandi. 

Samkvæmt reglu sem hollensk yfirvöld settu árið 2013 felur í sér að undir sérstökum aðstæðum megi veita börnum hæli ef þau hafa verið í landinu í fimm ár eða lengur meðal umsókn þeirra um hæli er í kerfinu.

Goeman segir að nánast aldrei sé veitt slík heimild og því sé þetta í raun orðin tóm.

Hayarpi Tamrazyan.
Hayarpi Tamrazyan. AFP

Af þeim rúmlega þrjú þúsund umsóknum sem hafa borist um slíka veitingu hælis hefur meirihlutanum verið hafnað.

Prestur við kirkjuna segir að það sé hlutverk kirkjunnar að sýna mannúð og kærleika. 

Útlendingastofnun segir við fjölmiðla að hún tjái sig ekki um einstök mál en dómsmálaráðherra hefur vald til þess að veita börnum hæli við ákveðnar kringumstæður. Mál armensku fjölskyldunnar minnir mjög á svipað tilvik í september en þá hurfu tvö armensk börn, Howick, 13 ára og systir hans Lili, 12 ára, en vísa átti þeim úr landi. Þá skarst dómsmálaráðherra inn í málið og veitti þeim hæli og fljótlega eftir að það varð ljóst þá komu börnin fram.

Frétt BBC

Frétt Telegraph

Frétt Sky

Frétt New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert