Tillaga um „geimher“ send til þingsins

Patrick Shanahan, starfandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Patrick Shanahan, starfandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, Pentagon, hefur lagt fram tillögu til Bandaríkjaþings sem myndi leiða til þess, verði hún samþykkt, að ný deild yrði stofnuð innan Bandaríkjahers, svokallaður „geimher“ (e. Space Force), sem yrði starfandi undir flughernum.

Þetta er gert að beiðni Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem vill meina að stofna þurfi sérstaka deild innan hersins til þess að einbeita sér að því að verja gervihnetti og takast á við ógnir í himinhvolfinu, en Pentagon hefur varað við því að bæði Rússar og Kínverjar þrói nú tækni til þess að beita sér gegn gervihnöttum með hernaði.

„Nálgun okkar fylgir djarfri sýn forsetans á geiminn,“ sagði Patrick Shanahan, starfandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna í dag. Samkvæmt tillögunum yrði geimliðið fellt undir stjórn flughersins, á svipaðan hátt og landgönguliðafloti hersins fellur undir sjóherinn í skipuriti hersins.

Bandaríkjaþing þarf nú að fara yfir þessar tillögur frá Pentagon, en þær hafa verið umdeildar á meðal þingmanna sem og sérfræðinga í varnarmálum vestanhafs, sem lýst hafa áhyggjum af auknum kostnaði, meiri skriffinsku og mögulegum tvíverknaði, þar sem hluti verkefna geimliðsins yrði svipaður þeim sem flugherinn hefur þegar á sinni könnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert