Vísað frá Bandaríkjunum eftir 60 ár

Minnismerki við Neuengamme útrýmingarbúðirnar.
Minnismerki við Neuengamme útrýmingarbúðirnar. Ljósmynd/Wikipedia.org

Dómari í Tennessee í Bandaríkjunum hefur fyrirskipað að fyrrverandi fangaverði í útrýmingarbúðum nasista í Þýskalandi, sem búið hefur í Bandaríkjunum í rúm 60 ár, skuli vísað úr landi og aftur til Þýskalands. Þar í landi á hann enn yfir höfði sér refsingu fyrir að hafa verið í þjónustu nasista í seinni heimsstyrjöldinni. BBC greinir frá.

Friedrich Karl Berger, sem er 94 ára, sagði í samtali við Washington Post eftir réttarhöldin að sér hefði verið skipað að vinna í Neuengamme-útrýmingarbúðunum í norðvesturhluta Þýskalands. Dómarinn í málinu, Rebekka Holt, benti á að þar hefði gyðingum verið haldið við hryllilegar aðstæður og þeir látnir vinna þar til þeir örmögnuðust eða létust.

Þegar Holt kvað upp úrskurð í málinu sagði hún að Berger hefði viljugur starfað sem vopnaður vörður í búðum þar sem aftökur fóru fram, en hann viðurkenndi það sjálfur við réttarhöldin að sitt hlutverk hefði verið að koma í veg fyrir að fangar flýðu úr búðunum. Síðar sagði hann þó blaðamönnum að hann hefði aðeins starfað tilneyddur í skamman tíma og að hann hefði aldrei borið vopn.

„Það eru 75 ár síðan, þetta er fáránlegt. Ég trúi þessu ekki,“ sagði Berger í samtali við Washington Post. „Það er verið að neyða mig út af heimili mínu.“

Ekki liggur enn fyrir hvort Berger muni áfrýja úrskurðinum, en það myndi hugsanlega fresta brottvísuninni um einhvern tíma, jafnvel nokkur ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka