Hungur fyrsta merki veirunnar

Fyrir fátækt fólk eru fyrstu merkin um kórónuveirufaraldurinn hungur. Fólk eins og Mirela sem er átján ára nýbökuð móðir. Hún býr í kumbalda í úthverfi Tirana, höfuðborgar Albaníu. Það eina sem hún getur gefið barni sínu er þurrmjólk sem hún hirti úr ruslinu. „En hvað svo?“ spyr hún þar sem hún kúrir með barnið í húsi sem hún deilir með mörgum öðrum.

Mirela og hundruð þúsunda róma-fólks býr í fátækrahverfum borga á vesturhluta Balkanskagans. Útgöngubann og aðrar aðgerðir til að sporna gegn  útbreiðslu kórónuveirunnar hafa þurrkað út lífsviðurværi daglaunafólks. Fólki sem lifir á því að selja plast og málma sem það hirðir úr ruslinu. Þetta veldur því að í hverfinu sem Mirela býr í safnast ruslið upp með tilheyrandi óþef.

Mirela Vogli er 18 ára gömul og á tveggja vikna …
Mirela Vogli er 18 ára gömul og á tveggja vikna gamla dóttur. AFP

Allt er lokað og hvergi hægt að selja varning til endurvinnslu. Þetta þýðir að Mirela og félagar hennar eru peningalaus og geta ekki keypt sér mat. „Þannig að við verðum að fara í gegnum ruslið til að finna eitthvað að borða, pasta og hrísgrjón til dæmis,“ segir Vanesa Lika, sem er 15 ára móðir sem einnig býr í hverfinu Breglumas. 

Þrátt fyrir lokanir fer hópurinn, um 40 manns, á hverjum degi og safnar flöskum og dósum í þeirri von að fljótlega verði endurvinnslur opnaðar að nýju. Á sama tíma óttast þau að smitast af dótinu sem þau snerta í ruslinu. „Við vitum að flöskurnar geta borið veiruna en það er ekkert annað sem við getum gert,“ segir Lindita Vogli. „Fátæktin neyðir þig til að reyna allt.“

Þrátt fyrir að veiran leggist jafnt á ríka sem fátæka þá eru öryggisráðstafanir eins og reglulegur handþvottur, fjarvinna og fjarlægð frá öðrum munaður sem ekki er allra.

Sígaunar, öðru nafni róma-fólk, eru stærsti þjóðernisminnihlutahópur Evrópu og hafa verið beittir misrétti í mörgum löndum álfunnar. Sígaunar eru víða utangarðs í samfélaginu og njóta ekki sömu réttinda og aðrir hvað varðar húsnæði, atvinnu, heilsugæslu og menntun.

Erfitt er að áætla fjölda sígauna í Evrópu þar sem þeir eru sjaldan taldir í manntölum vegna flökkulífs þeirra. Talið er þó að þeir geti verið um tíu til tólf milljónir samtals, að sögn mannréttindastofnunar Evrópusambandsins. Þriðjungur þeirra er án atvinnu og 90% undir fátæktarmörkum, að því er segir í grein sem Bogi Þór Arason skrifaði í Morgunblaðið fyrir nokkrum árum.

Lindita Vogli safnar flöskum og dósum.
Lindita Vogli safnar flöskum og dósum. AFP

Róma-fólk á Balkanskaganum vinnur flest íhlaupavinnu sem ekki er lengur í boði. Til að mynda ruslaflokkun eða tónlistariðkun á götum úti. 

Í Suto Orizari, þar sem fjölmargir af ætt róma búa í úthverfi Skopje í Makedóníu, er flóamarkaðurinn sem venjulega iðar af lífi lokaður. 

 Yfir 10 þúsund hafa sýkst af kórónuveirunni á vesturhluta Balkanskagans og tæplega 300 látist en svæðið er eitt af fátækustu hlutum Evrópu. Alþjóðabankinn áætlar að á milli 700 þúsund og 1,3 milljónir róma-fólks búi þar. 

„Við leitum í ruslafötum að dósum eða sápuflöskum og fyllum þær af vatni til að þvo okkur um hendurnar, “ segir Lika við fréttamann AFP á sama tíma og hún reynir að róa hóstandi barnið. Innan við helmingur róma-fólks í Albaníu er með rennandi vatn. 

AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert