80 ár síðan Trotskí var myrtur með ísexi

Áttatíu ár eru um þessar mundir liðin síðan rússneski byltingarsinninn Leon Trotskí var myrtur með ísexi.  Enn eru byssuholur á vegg í húsinu í Mexíkó þar sem hann bjó sem minna á misheppnað banatilræði sem honum var sýnt nokkrum mánuðum áður. 

„Ég er nú þegar orðinn kunnugur“ dauðanum, sagði Trotskí eftir að hann lifði af skotárásina á heimili sínu í Mexíkóborg þar sem hann lifði síðustu æviár sín í útlegð.

„Svart hatur Stalíns hefur elt mig yfir hálfan hnöttinn,“ sagði hann við mexíkóskt dagblað.

Leon Trotskí og eiginkona hans Natalia Sedova í Mexíkó árið …
Leon Trotskí og eiginkona hans Natalia Sedova í Mexíkó árið 1937. AFP

Nokkru síðar, eða 20. ágúst 1940, voru dagar hans taldir þegar hann var drepinn með ísexi eftir fyrirskipun Jósefs Stalíns, þáverandi einræðisherra Sovétríkjanna.

„Þetta var hugmyndafræðilegur, táknrænn glæpur,“ sagði kúbanski rithöfundurinn Leonardo Padura, sem var í mörg ár að rannsaka morðið fyrir skáldsögu sína The Man who Loved Dogs, í samtali við AFP-fréttastofuna.

Hús Trotskí, sem er staðsett í hverfinu Coyoacan, er núna safn, en gröf hans er einnig í garðinum.  

Skrifborð byltingarsinnans.
Skrifborð byltingarsinnans. AFP

Keisara steypt af stóli

Trotskí, sem hét réttu nafni Lev Davidovich Bronstein, stofnaði Rauða herinn og var, ásamt Vladimir Lenín, einn þeirra sem stóðu á bak við byltingu bolsjevika er þeir steyptu Nikulási II, síðasta keisara Rússlands, af stóli.

Eftir að hafa lent upp á kant við Stalín á þriðja áratug síðustu aldar varð Trotskí að fara í útlegð. Marxistinn flakkaði um Tyrkland, Noreg og Frakkland áður en hann endaði í Mexíkó árið 1937 þar sem listamaðurinn Diego Rivera tók þátt í að sannfæra ríkisstjórn hershöfðingjans Lazaro Cardena um að veita honum hæli.

Málarinn Frida Kahlo tók á móti Trotskí og eiginkonu hans Nataliu Sedova við höfnina í Tampico, Mexíkó, en talið er að Kahlo og Trotskí hafi síðar átt í ástarsambandi.

Gröf Leon Trotskí og eiginkonu hans.
Gröf Leon Trotskí og eiginkonu hans. AFP

Slapp ekki úr klóm Stalíns 

Þrátt fyrir að vera kominn í aðra heimsálfu var rithöfundurinn ekki sloppinn úr klóm Stalíns. Trotskí og eiginkona hans lifðu af fyrstu árásina 24. maí 1940 með því að kasta sér undir rúm. Barnabarn þeirra, sem svaf í næsta herbergi, slasaðist á fæti.

Byssukúlur á svefnherbergisvegg á heimili Trotskí.
Byssukúlur á svefnherbergisvegg á heimili Trotskí. AFP

Morðinginn Mercader

Trotskí jók alla öryggisgæslu í kringum heimili sitt eftir árásina en það dugði ekki til að halda aftur af morðingjanum Ramon Mercader. Hann var spænskur kommúnisti og starfaði fyrir sovésku leyniþjónustuna. Honum tókst að komast inn í innsta hring Trotskí en eftir að rithöfundurinn setti upp stálhlið við heimili sitt, sem öryggisverðir vöktuðu, ákvað Mercader að ráðast á Trotskí með ísexi í stað byssu til að eiga meiri möguleika á að sleppa í burtu.

Mercader, sem einnig var með til öryggis undir jakka sínum bæði skammbyssu og hníf, komst inn á lóðina og hjó Trotskí í höfuðið með exinni. Hann særðist illa, hrópaði á hjálp og Mercader var handsamaður. Byltingarsinninn lést á sjúkrahúsi í Mexíkóborg daginn eftir.

Svefnherbergi Leon Trotskí í Mexíkó.
Svefnherbergi Leon Trotskí í Mexíkó. AFP

Horfið morðvopn

Morðvopnið hvarf síðar þetta ár en áratugum síðar bauð dóttir lögregluþjóns það til sölu og sagðist hafa geymt það undir rúminu sínu í mörg ár.

Síðar keypti sagnfræðingurinn Keith Melton öxina og er hún til sýnis á Alþjóðlega njósnasafninu í Washington.

Ísöxin sem var notuð til að myrða Trotskí.
Ísöxin sem var notuð til að myrða Trotskí. AFP
Húsið þar sem Trotskí bjó. Þar er núna safn.
Húsið þar sem Trotskí bjó. Þar er núna safn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert