Trump setur McConnell í sigtið hjá sér

Slest hefur upp á vinskapinn hjá Donald Trump, fyrrveranda Bandaríkjaforseta, …
Slest hefur upp á vinskapinn hjá Donald Trump, fyrrveranda Bandaríkjaforseta, og Mitch McConnell, leiðtoga repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings. AFP

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur hvatt öldungadeildarþingmenn til að losa sig við Mitch McConnell, leiðtoga repúblikana í öldungadeildinni. Þetta kom fram í yfirlýsingu sem Trump sendi frá sér þar sem hann bregst við ummælum McConnell sem sagði Trump eiga sök á innrásinni í bandaríska þinghúsið 6. janúar sl.

Þrátt fyrir að hafa kosið með sýknu Trump í atkvæðagreiðslu öldungadeildarinnar í ákæruferlinu gegn Trump á dögunum gagnrýndi McConnell forsetann fyrrverandi harðlega í ræðu eftir atkvæðagreiðsluna. Sagði hann engan vafa á því að Trump bæri raunverulega og siðferðislega ábyrgð á árásinni á þinghúsið og að hann hefði vanrækt á skammarlegan hátt embættisskyldur sínar.

„Það verður aldrei aftur borin virðing fyrir Repúblikanaflokknum og hann verður aldrei aftur öflugur með menn eins og Mitch McConnell í brúnni,“ sagði í yfirlýsingu Trumps.

„Mitch er þrá, þungbúin og fýluleg pólitísk bikkja, og ef öldungadeildarþingmenn repúblikana ætla að standa við bakið á honum, munu þeir ekki ná endurkjöri.“

Í yfirlýsingunni kenndi hann McConnell um slæmt gengi repúblikana í kosningum til öldungadeildar í nóvember sl. en hrósaði sjálfum sér fyrir að hafa átt þátt í að fjölga þingmönnum flokksins í fulltrúadeildinni. Trump sagðist sjá eftir því að hafa lýst yfir stuðningi við McConnell eftir að sá síðarnefndi „grátbað“ hann um slíka yfirlýsingu.

„Án stuðnings míns hefði hann tapað og tapað stórt,“ bætti Trump við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert