Forsætisráðherrar fá efni AstraZeneca

Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu.
Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu. AFP

Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu, reyndi að sannfæra landa sína um ágæti bóluefnisins frá bresk-sænska lyfjaframleiðandanum AstraZeneca á blaðamannafundi í kvöld með því að tilkynna að hann myndi sjálfur verða bólusettur með því.

„Ég hef ekki ennþá verið boðaður í bólusetningu, en fólk á mínum aldri er í þeim hóp fólks sem má fá bóluefnið og já ég mun fá bóluefni AstraZeneca,“ sagði Draghi, sem er 73 ára gamall, spurður hvort hann treysti sér til að fá það sjálfur.

Lyfjastofnun Ítalíu stöðvaði tímabundið bólusetningar með bóluefninu á mánudaginn í kjölfar tilkynninga um mögulega alvarlegar aukaverkanir. Bólusetningar hófust svo aftur í dag eftir að Lyfjastofnun Evrópu (EMA) gaf grænt ljós á notkun efnisins í gær.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fékk fyrr í dag fyrri skammtinn af tveimur af bóluefninu frá AstraZeneca. Fékk hann sprautuna á St. Thomas-spítalanum, þeim sama og hann var á þegar hann barðist fyrir lífi sínu fyrir tæpu ári eftir að hafa veikst alvarlega af Covid-19.

„Þetta er það besta fyrir ykkur, fyrir fjölskyldu ykkar og fyrir alla aðra,“ sagði Johnson um bólusetningar.

Í morgun fékk Jean Castex, forsætisráðherra Frakklands, einnig fyrri skammtinn af bóluefni AstraZeneca. Hann lofaði í gærkvöldi að hann yrði bólusettur með efninu eftir að EMA gaf út að það væri óhætt til notkunar.

Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun hér á landi hvort og hvenær bólusetningar með efni AstraZeneca hefjist á nýjan leik. Búist er við ákvörðun eftir helgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert