Talíbanar með trygga fjármögnun

Talíbani með sprengjuvörpu reidda um öxl stendur vörð við hlið …
Talíbani með sprengjuvörpu reidda um öxl stendur vörð við hlið innanríkisráðuneytisins í höfuðborginni. AFP

Talíbanarnir, sem þrömmuðu á dögunum mótspyrnulaust inn í forsetahöllina í Afganistan, eru ekki sömu talíbanarnir og menn áttu í höggi við fyrir aldamót. Jú, sum sömu andlitin má þar enn finna, en aðallega er það yfirbragðið sem hefur breyst.

Það má sjá á klæðaburði þeirra og fasi, tækjum og tólum. Áður fyrr voru þeir sumir nánast í tötrum og vopnabúnaðurinn stundum eins og af Þjóðminjasafninu. Það á ekki við lengur. Fötin eru ný og vönduð, þeir eru vel haldnir, og bera margir með sér að vera vel efnum búnir.

Vopnin eru ný og fægð, bílarnir nýlegir og vel við haldið. Og eins og til þess að undirstrika að þeir séu ekki fastir á 14. öld eru talíbanarnir með nýjustu snjallsímana og telja ekki eftir sér að deila lífsviðhorfi sínu og sjálfum á félagsmiðlum.

AFP

Örugglega ekki dregist saman

Ýmsir fjölmiðlar á borð við Financial Times og India Today hafa veitt þessu eftirtekt og reynt að slá máli á þessa efnalegu velgengni talíbana. Árið 2016 tók tímaritið Forbes saman einn af sínum víðkunnu listum, að þessu sinni yfir tíu auðugustu hryðjuverkasamtökin. Þá voru talíbanar í 5. sæti með áætlaða 400 milljóna dala veltu, en Ríki íslams var efst með 2 milljarða dala veltu áætlaða. Margt hefur breyst síðan og talíbanar eru án vafa komnir á toppinn eða mjög nálægt honum.

Samkvæmt áætlun sérfræðinga Atlantshafsbandalagsins (NATO), sem Radio Free Europe/Radio Liberty sagði frá, námu árlegar tekjur talíbana á fjárhagsárinu 2019/20 1,6 milljarði Bandaríkjadala, sem er jafnvirði liðlega 200 milljarða íslenskra króna. Þetta er ekkert klink og einnig athyglisvert að það er fjórföldun á áætlun Forbes aðeins fjórum áður árum. Tekjurnar hafa örugglega ekki dregist saman síðan.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert