Vilja neyðarheimild fyrir lyf gegn Covid-19

Lyfjarisinn Pfizer leitast eftir því að fá neyðarheimild fyrir notkun …
Lyfjarisinn Pfizer leitast eftir því að fá neyðarheimild fyrir notkun á lyfinu Paxlovid sem nota á gegn Covid-19 sjúkdómnum. AFP

Bandaríski lyfjarisinn Pfizer hefur farið fram á að grænt ljós verði gefið á lyf við Covid-19, Paxlovid, eftir jákvæðar niðurstöður úr rannsóknum.

Þessi beiðni kemur fram tæplega tveimur vikum eftir að breska lyfjaeftirlitið samþykkti lyf frá Merck Sharp & Dohme (MSD) sem er einnig ætlað til meðhöndlunar á Covid-19 sjúkdómnum.

Svo virðist sem lyf Pfizer dragi verulega úr líkum á spítalainnlögnum og dauðsfalli meðal sjúklinga í áhættuhópi sem hafa nýlega sýkst af veirunni, eða um 90%. Telja sérfræðingar Paxlovid vera mikilvægan lið í baráttunni við kórónuveiruheimsfaraldurinn.

Geta afhent 180 þúsund skammta á þessu ári

„Við erum að reyna að hraða ferlinu eins hratt og við getum til að koma mögulegri meðhöndlun í hendur sjúklinga,“ sagði Albert Bourla forstjóri Pfizer í yfirlýsingu.

Pfizer leitast nú eftir því að fá neyðarheimild fyrir notkun á lyfinu í ljósi niðurstaðna rannsókna seint á rannsóknarferlinu, sem hundruð einstaklinga hafa tekið þátt í.

Sjúklingar taka meðalið í rúmlega fimm daga. Einn af hverjum fimm sem fengu lyfið sýndu einhverjar aukaverkanir sem voru þó taldar mildar. Þá var svipað hlutfall aukaverkana að sjá í hópnum sem fengu lyfleysu.

Pfizer hefur sagt að fyrirtækið geti afhent um 180 þúsund skammta af lyfinu á þessu ári og að minnsta kosti 50 milljónir fyrir næsta ár. Heimildir Washington Post herma að ríkisstjórn Bandaríkjanna ætli sér að tilkynna um kaup á 10 milljón skömmtum af pillunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert