Lyf frá Pfizer komi í veg fyrir 9 af 10 innlögnum

AFP

Tilraunalyf frá lyfjaframleiðandanum Pfizer, sem ætlað er til þess að meðhöndla Covid-19, minnkar líkur á spítalainnlögn eða andláti vegna Covid-19 um 89%, samkvæmt niðurstöðum klínískrar rannsóknar á lyfinu sem heitir Paxlovid. 

Það er helst ætlað fyrir eldra fólk og fólk í áhættuhópum. 

Niðurstöðurnar birtust í dag, einum degi eftir að breska lyfjaeftirlitið samþykkti svipað lyf frá lyfjafyrirtækinu Merck Sharp and Dohme (MSD). 

Geti bjargað mannslífum

Pfizer segir að vegna þess hve góðar niðurstöðurnar séu muni fyrirtækið ekki kalla fleira fólk inn í tilraunina. Þá ætlar það sér að skila inn gögnum til matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna eins fljótt og mögulegt er. Lyfið er nú í ferli þar og er markmiðið Pfizer að fá þar neyðarleyfi fyrir Paxlovid.

„Dagurinn í dag breytir leiknum hvað varðar baráttuna við faraldurinn,“ sagði Albert Bourla, framkvæmdastjóri Pfizer um málið. 

Hann segir niðurstöður fyrrnefndrar rannsóknar gefi til kynna að lyfið geti bjargað lífum og komið í veg fyrir níu af hverjum tíu spítalainnlögnum. 

Pfizer hefur áður lagt sitt til í baráttunni við faraldurinn með bóluefni gegn Covid-19 sem er það sem er mest notað hérlendis. Pfizer hefur hagnast verulega á bóluefninu sem hefur selst í milljarðavís.

mbl.is

Bloggað um fréttina