Leitar réttar síns vegna samsæriskenninga

Brigitte Macron, forsetafrú Frakklands, ásamt eiginmanni sínum Emanuel Macron, forseta …
Brigitte Macron, forsetafrú Frakklands, ásamt eiginmanni sínum Emanuel Macron, forseta Frakklands. AFP

Brigitte Macron, forsetafrú Frakklands, hyggst leita réttar síns vegna samsæriskenningar sem gengið hefur manna á milli á netinu þess efnis að hún hafi fæðst sem karlmaður og sé því trans-kona. BBC greinir frá.

Samsæriskenningin birtist fyrst í september á vefsíðu sem birtir alla jafnan öfgasinnað efni. En síðan þá hafa samsæriskenningarnar birst víða á samfélagsmiðlum.

Eins og áður segir gengur kenningin þá út á það að forsetafrúin hafi fæðst sem karlmaður og áður heitið Jean-Michel Trogneux. Nafnið hefur þá verið vinsælt í dreifingu á samfélagsmiðlum.

Lögfræðingur forsetafrúarinnar staðfestir við BBC að Macron muni leita réttar síns. „Hún hefur ákveðið að leita réttar síns vegna þessara samsæriskenninga og er málið því í formlegu ferli,“ er haft eftir Jean Ennochi lögfræðingi Macron.

Andstæðingar forsetans fyrirferðarmiklir

Helst eru það þá hópar og síður á netinu sem eru andstæðingar Emanuel Macron, forseta Frakklands og eiginmanns Brigitte, sem dreifa samsæriskenningunni. Má þar nefna hópa sem andsnúnir eru bólusetningum og QAnon hópar.

Ekki um að ræða fyrsta skiptið sem Brigitte Macron verður fyrir aðkasti á netinu en meðal annars hafa hópar gert mikið grín af aldursmun forsetans og forsetafrúarinnar en 25 ár eru á milli hjónanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert