Gengið um garð æskunnar í borg sem er undir árás

Kross í garði æskunnar sem er minnismerki um hungurmorðið í …
Kross í garði æskunnar sem er minnismerki um hungurmorðið í Úkraínu 1932-33, en fyrir áhugasama er hægt að benda á nýlegan þátt Í ljósi sögunnar, þar sem kafað er ofan í þennan hræðilega kafla í sögu úkraínsku þjóðarinnar. Ljósmynd/Karíne

Í gær gekk Karíne í fyrsta sinn um almenningsgarð í nágrenni við heimili sitt síðan innrás Rússa hófst, en fram að því hafði garðurinn verið nánast daglegur viðkomustaður hjá henni að viðra hundinn sinn. Hún leiðir okkur í gegnum garðinn sem er fullur af áhugaverðum minnismerkjum og sögu. Á meðan fékk sjálfboðahópur Jaroslav sinn stærsta styrk hingað til og Sergei datt í lukkupottinn þegar hann fann loks vöru í verslun einni sem hann hafði leitað að síðustu daga.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­ine í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Karíne í Karkív

Það var gríðarlega mikil stórskotaárás á Karkív í nótt, en við sluppum. Í fréttunum var greint frá því að yfir 200 stórskotaárásir hafi verið gerðar á Karkív og nágrenni borgarinnar á síðasta sólarhring. Morguninn var hins vegar mun rólegri og ég ákvað að fara út að ganga með hundinn og hún dró mig í almenningsgarðinn. Áður fyrr vöndum við komur okkar þangað næstum á hverjum degi, en þetta var í fyrsta skiptið síðan 24. febrúar sem við fórum þangað.

Við hittum kunningja í garðinum sem var einnig úti að ganga með hundinn sinn, en fólk hérna reynir eftir bestu getu að lifa sem eðlilegustu lífi. Garðurinn gengur undir nafninu garður æskunnar og hann var mjög friðsæll í dag. Áður fyrr var þarna gamall grafreitur þar sem heldri borgarar Karkív voru grafnir, en á Sovéttímanum var garðinum lokað og á níunda áratugnum voru flestar grafirnar færðar. Nokkrar þeirra fengu þó að vera áfram, meðal annars gröf landslagsarkitektsins Serhí Vasilkivskí (1854-1917). Þá er einnig minnismerki um leikskáldið, leikstjórann, leikarann og rithöfundinn Marki Kropivnitskí, „föður úkraínska leikhússins“ (1840-1910), en samnefnd borg hér í Úkraínu er nefnd eftir honum. Vasilkivskí var hins vegar fæddur í borginni Izium, þar sem nú er hart barist.

Í garðinum má finna kirkju sem er nefnd eftir afhöfðunardegi …
Í garðinum má finna kirkju sem er nefnd eftir afhöfðunardegi Jóhannesar skírara (höfðadegi) Ljósmynd/Karíne

 

Í garði æskunnar er kirkja nefnd eftir afhöfðunardegi Jóhannesar skírara (höfðadegi), en hún var byggð um miðja nítjándu öld. Þar má meðal annars finna einstaka gler táknmyndir sem gerðar voru í Þýskalandi á fyrri hluta síðustu aldar í úkraínskum Art Nouveau-stíl.

Í garðinum er einnig að finna minnismerki um úkraínska andspyrnuhermenn sem börðust gegn bæði Sovétríkjunum og nasistum í seinni heimstyrjöldinni og svo er þar kross til minningar um þá sem létust í hungursneyðinni í Úkraínu [einnig þekkt sem holodomór eða hungurmorð]. Að lokum er minnismerki um fórnarlömb Tjérnóbyl-slyssins.

Í kringum garðinn eru svo íþróttamannvirki og byggingar tækniskólans. Meðal annars er þarna sundhöll þar sem ég fór vikulega að synda. Ekki langt frá eru svo byggingar háskólans í Karkív.

Við löbbuðum svo aðeins áfram, en þá heyrðist hávaði frá stórskotaárás og við hröðuðum okkur heim. Dagurinn leið svo að mestu án frekari árása. Frá og með morgundeginum mun útgöngubannið byrja síðar á kvöldin, eða klukkan átta.

Eitt glerlistaverkanna sem finna má í kirkjunni.
Eitt glerlistaverkanna sem finna má í kirkjunni. Ljósmynd/Karíne

 

Sergei í Lvív

Þrítugasti og þriðji dagur stríðsins. Stærstan hluta dagsins var ekkert rafmagn á húsinu þar sem ég bý þannig að ég ákvað að fara í gönguferð um nágrennið. Það er ekki mikið vöruúrval í búðum og sumar hafa alveg lokað. Keypti nokkrar vörur fyrir ketti og sendi til vinar míns í Kænugarði, en þar er jafnvel meira vesen að finna ákveðnar vörur. Sem betur fer fann ég svo loksins óáfengan bjór í einni búðinni.

Þegar ég kom heim fór ég að vinna að í tónlistarverkefni sem ég er með í vinnslu, auk þess að þrífa aðeins. Dagurinn leið reyndar bara nokkuð fljótt.

Fréttir dagsins voru ekki stórfréttir. Annað hvort það eða að ég er orðinn ónæmur fyrir þessu öllu. Erfiðasta staðan er þó áfram í Maríupol. Ég hreinlega get ekki ímyndað mér hvernig fólkið þar lifir af.

Staðan: Enn að reyna að rifja upp góða tónlist sem ég hef ekki hlustað á í mörg ár.

Jaroslav í Ódessu

Langur dagur að baki eftir 16 tíma vinnu. Við fengum mjög stóran styrk, stærri en við höfum fengið hingað til. Stemningin í hópnum er líka ótrúlega góð og batnar alltaf. Er í raun mun betri en þegar við hófumst handa strax og stríðið byrjaði.

Við keyptum mikið af mat og gerðum klára fjölda matarpakka sem við keyrðum jafnframt út. Samtals fóru út um sextíu pakkar með heitum mat sem í voru tvær máltíðir, bæði súpa og hafragrautur.

Það er nóg að gera hjá Jaroslav og félögum við …
Það er nóg að gera hjá Jaroslav og félögum við að keyra út heitum mat til þeirra sem þurfa í Ódessu. Ljósmynd/Jaroslav

 

Við vorum einnig í sambandi við innlenda fjölmiðla sem vildu komast í samband við eldri borgara sem við erum að aðstoða til að ræða við þau. Fjölmiðlafólkið er að vinna að heimildarmyndefni og vill heyra frá þessu eldra fólki hvernig hafi verið bæði fyrir stríðið og svo núna eftir að það byrjaði.

Miðað við ganginn í þessu hjá okkur gæti morgundagurinn jafnvel orðið lengri. Við munum þurfa að fara til fjölda fólks og taka niður pantanir o.fl. Óskið mér góðs gengis!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka