„Hver er tilgangur þessarar ómannúðlegu grimmdar?“

Úkraínski hópurinn sem hefur verið með Jaroslav og félaga hans …
Úkraínski hópurinn sem hefur verið með Jaroslav og félaga hans á ferðinni síðustu daga. Mennirnir vildu ekki vera greinanlegir á myndinni. Ljósmynd/Jaroslav

Fjöldamorðin í borginni Bútsja, þegar Rússar hörfðu frá borginni, eru skiljanlega ofarlega í huga íbúa Úkraínu. Fólk reynir að átta sig á hryllingnum, en spyr sig jafnframt hvað það hafi verið sem Rússum hafi gengið til og hvort þeir hafi búist við að komast upp með voðaverkin án þess að þau myndu uppgötvast.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­ine í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Mánudagur 4. apríl

Karíne í Karkív

Grimmdarverk Rússa í borgum okkar, sérstaklega í Bútsja, snertir okkur öll. Nú veit allur heimurinn um Bútsja og blóðbaðið sem átti sér stað þar.

Þegar ég vaknaði í morgun áttaði ég mig á einu mikilvægu atriði eftir að hafa rætt við vin minn daginn áður um morðin í Bútsja. Þessi vinur minn hafði spurt „Við hverju bjuggust þeir? Héldu Rússarnir að enginn myndi sjá þetta?“ Í gær átti ég ekkert svar við þessari spurningu, en svo velti ég þessu fyrir mér. Þeir sem drápu og pynduðu almenna borgara í Bútsja voru klárlega sadistar og skrímsli. Það er einnig klárt mál að þetta voru Rússar.

Og þessi hroðaverk og þjóðarmorð eru framin vegna haturs á Úkraínu, Úkraínubúum og öllu sem er úkraínskt. Það er einnig á hreinu. En af hverju gerðu þeir þetta í Bútsja og af hverju voru líkin skilin eftir svona á víð og dreif? Hver er tilgangur þessarar ómannúðlegu grimmdar?

Tilgangurinn var að reyna að búa til frásögn þar sem ábyrgð morðanna er komið á Úkraínumenn sjálfa, einhverja ótilgreinda öfga þjóðernissinna. Rússar vildu reyna að blekkja heiminn með sinni útgáfu af stríðinu og reyna að bregða upp þeirri mynd að hér geisaði borgarastríð þar sem mismunandi hópar innanlands væru að berjast sín á milli. Og þá vaknar spurningin. Trúðu þeir virkilega að heimurinn myndi trúa þeim?!

Í gær sá ég myndband af stúlku í Rússlandi sem horfði á sjónvarpsfréttir þar í landi, en sýnt var frá sprengjuárásum Rússa á stjórnarbygginguna hér í Karkív. Þulurinn talaði yfir fréttina og sagði að það væru þjóðernissinnar í Úkraínu sem væru að skjóta sprengjum á Karkív!!! Og svo spurði stúlkan í myndbandinu hvað væri eiginlega í gangi í Úkraínu.

Rússar eru að reyna að setja á svið einhverja falsmynd af því sem er að gerast hér og koma ábyrgðinni yfir á einhverja óskilgreinda öfga þjóðernissinna. Þeir ljúga því til að þessir samborgarar okkar séu að sprengja upp Karkív og að Úkraínumenn hafi látlaust skotið sprengjum á Donbas-héruðin. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessum málflutningi. Bútsja blóðbaðið hefur verið skipulagt og það eru sannanir fyrir því.

Svo telja Rússar að Úkraína eigi sér ekki tilverurétt sem sjálfstætt ríki. Þetta er framhald á áralöngum ásóknum gegn Úkraínubúum í gegnum áratugina, sérstaklega á fjórða áratugnum með hungurmorðunum. Rússum var aldrei refsað fyrir það, en nú munu þeir fá það sem þeir eiga skilið.

Viðbragðsaðilar í Bútsja flytja lík íbúa sem voru drepnir af …
Viðbragðsaðilar í Bútsja flytja lík íbúa sem voru drepnir af Rússum í burtu af götum borgarinnar. AFP

Jaroslav í Ódessu

Ég veit að þið hafið heyrt um hryllinginn í Bútsja, nálægt Kænugarði. Ég hef tekið eftir því að þetta hefur vakið mikla athygli á netinu víða um heim. Þetta er algjörlega hræðilegt og viðbjóðslegt hvernig sem á það er litið. Þá kemur þetta líka í veg fyrir að einhverja mannúð sé að finna hjá andstæðingnum.

Síðustu daga hef ég varið talsverðum tíma með mjög áhugaverðum hópi nægjusamra og hugrakkra einstaklinga. Allir eru mismunandi, starfa í mismunandi greinum, eiga mismunandi áhugamál og eiga mismunandi lífstíl. En núna eru þeir allir saman og ganga saman sem einn og hafa tengst hvor öðrum.

Við ræddum um vandamál sem þeir standa frammi fyrir og þeim lausnum sem þeir hafa komið með. Meðal annars hafa þeir fengið gríðarlega mikla aðstoð, en flestir vilja aðstoða hermennina.

Allir Úkraínubúar hafa helgað sig baráttunni fyrir eigin landi og við munum gera allt til að afkomendur okkar geti áfram byggt þetta land og að framtíð þess verði í þeirra höndum. Sannleikurinn er með okkur í liði.

Sergei í Lvív

Fertugasti dagur stríðsins. Eins og í gær er ég tilfinningalega galtómur. Ég get ekki lesið fréttir og allsstaðar á samfélagsmiðlum sér maður vini og kunningja skrifa um þá hræðilegu hluti sem hafa átta sér stað í nágrannabæjum Kænugarðs.

Ég er að reyna að undirbúa mig andlega fyrir jarðarför vinar míns sem lést um daginn á víglínunni. Við vinahópurinn hófum að safna pening til að aðstoða fjölskyldu vinar okkar, en það er ómögulegt að gera sér í hugarlund hvernig konu hans og börnum líður núna.

Ég mun líklegast þurfa nokkra daga til að komast yfir þetta andlega, en á morgun er ráðgert að það verði fullur dagur í hefðbundnu vinnunni. Það er gott að komast á skrifstofuna aftur og geta einbeitt sér að einhverju allt öðru í smá stund.

Kötturinn minn er þessa dagana alltaf í kringum mig. Það er greinilegt að hann skynjar hvernig mér líður – lang besti læknirinn.

Í dag barst mér mynd frá víglínunni sem sýnir nokkrar úkraínskar sprengjur. Félagar vinar míns ætla að senda nokkrar slíkar til óvinarins til að hefna fyrir Júrí.

Sprengjur sem félagar Júrís hafa skrifað á og eiga að …
Sprengjur sem félagar Júrís hafa skrifað á og eiga að vera til minningar um hann.

Frá þessari stundu er engin miskunn í huga mínum lengur. Rússar eru ábyrgir fyrir öllu því sem hefur gerst. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að sýna heiminum sannleikann um „þessa svokölluðu þjóð“ sem Rússar eru.

Staðan: Á erfitt með að trúa því hvað er langt síðan lífið var eðlilegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka