Varaforsetinn með peningasekk heima hjá sér

Eva Kaili er sögð ein hinna ákærðu.
Eva Kaili er sögð ein hinna ákærðu. AFP/Eric VIDAL

Fjögur hafa verið ákærð og eru í haldi belgísku lögreglunnar í tengslum við spillingu innan Evrópuþingsins sem tengist heimsmeistaramótinu í Katar.

Saksóknari í Belgíu hefur ekki gefið upp nöfn hinna ákærðu en heimildir AFP-fréttastofunnar herma að gríska jafnaðarkonan Eva Kaili, varaforseti Evrópuþingsins, sé í hópi þeirra ákærðu. Saksóknari staðfesti þó að gerð hefði verið húsleit hjá einum varaforseta þingsins.

„Þau eru ákærð fyrir að taka þátt í skipulagðri glæpastarfsemi, peningaþvætti og spillingu. Tveimur hefur hefur verið sleppt úr haldi,“ sagði í yfirlýsingu saksóknara í Belgíu.

Fundu 90 milljónir við húsleit 

Kaili var í hópi sex grunaðra sem handtekin voru í Brussel á föstudag vegna meintra mútugreiðslna í tengslum við heimsmeistaramótið í Katar. Sagt er að múturnar hafi verið greiddar í skiptum fyrir að mútuþegarnir beittu sér í stefnumótandi umræðum innan Evrópusambandsins.

Handtökurnar komu í kjölfar rassíu lögreglu og húsleita þar sem lagt var hald á 600 þúsund evrur í reiðufé, eða jafnvirði um 90 milljónir íslenskra króna. Lögreglan gerði einnig síma og tölvur upptækar. Samkvæmt heimildamanni AFP á Kaili að hafa verið með peningasekk á heimili sínu.

Kaili hefur verið svipt varaforsetaembætti Evrópuþingsins, en hún er enn þingmaður og nýtur þar af leiðandi ákveðinnar friðhelgi. Það á hins vegar ekki við þegar embættismenn eru gripnir glóðvolgir við glæpsamlega iðju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert