Helköld jól vestra

Rosa Falcon, sjálfboðaliði sem aðstoðar innflytjendur í El Paso, ræðir …
Rosa Falcon, sjálfboðaliði sem aðstoðar innflytjendur í El Paso, ræðir við skjólstæðinga sína í ískulda um helgina. AFP/Patrick T. Fallon

Ískalt heimskautaloft blæs nú um Bandaríkjamenn og kveður svo rammt að, að 200 milljónum íbúa í 48 ríkjum Bandaríkjanna hafa verið birtar veðurviðvaranir að sögn Bob Oravec, veðurfræðings NWS-veðurstofunnar sem þjónar öllu landinu.

Á flugvellinum í Denver lækkaði hitastig um rúmar 20 gráður á einni klukkustund í gær þegar kaldur vindurinn náði þangað, úr 5,5 gráðum í -15, og er því spáð að kuldinn muni setja strik í reikning jólaferðalaga Bandaríkjamanna, en reiknað er með því að 113 milljónir verði á faraldsfæti um lengri vegalengdir en 30 kílómetra næstu daga.

Spáð -26 gráðum í Texas

„Þakkargjörðarvikan var mjög fín hjá okkur og samgöngutafir með minnsta móti, en um jólin gegnir öðru máli,“ hefur MSNBC-sjónvarpsstöðin eftir Pete Buttigieg samgönguráðherra. Í Miðvesturríkjunum er gert ráð fyrir að rakt loftið yfir og umhverfis hin stóru stöðuvötn þar um slóðir geri illt verra nú þegar enn frekari blæstri er spáð þar.

Svo sunnarlega sem í Texas, Louisiana og Alabama er gert ráð fyrir helkulda um jólin, -26 gráðum á Dallas- og Fort Worth-svæðinu í Texas svo eitthvað sé nefnt og mun hitastigið reyna orkudreifingarkerfi ríkisins til hins ýtrasta en hundruð Texas-búa dóu úr kulda í febrúar í fyrra þegar vetrarstormur olli hruni kerfisins með þeim afleiðingum að milljónir voru án rafmagns.

Í Norður-Karólínu og Kentucky hefur neyðarástandi verið lýst yfir og í Colorado hafa hundrað þjóðvarðliðar verið kallaðir út til að vera íbúum innan handar á ögurstundu en ABC-fréttastofan talar um köldustu jól í áratugi.

Reuters

ABC News

San Francisco Chronicle

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert