Vill að fólksflutningar verði teknir fastari tökum

Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands.
Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands. AFP/John Thys

Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, telur mikilvægt að ríkisstjórnin beiti sanngjarnri en harðri nálgun þegar kemur að innflytjendamálum og vill að umsóknartími hælisleitenda verði styttur verulega, eða úr 18 mánuðum niður í sex til tólf vikur. 

„Við þurfum að vera staðföst við fólk sem hefur fengið höfnun á umsóknina sína,“ sagði Varadkar jafnframt við blaðamenn í Brussel í vikunni. 

„Við verðum að láta fólk vita, að ef það kemur til Írlands með falska baksögu eða á fölskum forsendum, þá munum við koma í veg fyrir að það komist hingað til að byrja með.“ 

Journal greinir frá.

Mikilvægt að Evrópubúar ráði

Umsóknarferli fyrir hælisleitendur tekur að meðaltali 18 mánuði. Varadkar vill að tíminn verði styttur niður í sex til tólf vikur ef mögulegt er og að brottvísunum verði framfylgt í málum þar sem úrskurður liggur fyrir.

Þá ítrekaði hann að ríkisstjórnin ætlaði að taka harðar á málum er varða mansal og glæpahringi.

„Þetta er fólk sem lætur fólk á fleka á Miðjarðahafinu og í Eyjahafi, og vonar að það verði tekið á móti því annars staðar en er í raun sama hvort það lifi af,“ segir Varadkar.

„Eitt af vandamálunum sem við höfum verið að ræða er hvernig við getum betur tryggt landamæri Evrópu. Það er mikilvægt að við sem Evrópubúar fáum að ráða því hver kemur inn í landið okkar, ekki þeir sem stunda mansal. Þeir eiga ekki að stjórna því hver kemst yfir landamæri okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert