Játar að hafa banað leikara The Wire

Michael K. Williams lést árið 2021 vegna ofneyslu fíkniefna.
Michael K. Williams lést árið 2021 vegna ofneyslu fíkniefna. AFP

Ástralski fíkniefnasalinn Irvin Cartagena, sem einnig er þekktur undir gælunafninu Grænu Augun (e. Green Eyes), játaði fyrir dómstól á Manhattan í dag að hafa selt leikaranum Michael K. Williams fíkniefnaskammt sem varð hans banamein.

Michael K. Williams, sem þekktur er fyrir leik sinn í bandarísku spennuþáttaröðinni The Wire, keypti heróín sem hafði verið blandað við fentaníl af Cartagena.

Lögmaðurinn Damien Williams sagði í dómssal í dag að Cartagena hafi selt Williams fíkniefnin „um hábjartan dag í New York borg, svalað fíkninni og orðið valdur að stórfelldum harmleik“. BBC greinir frá.

Gæti varðað 5 til 40 ára fangelsisvist

Michael K. Williams lét lífið eftir að hafa tekið inn efnið, 54 ára að aldri, árið 2021. Tilkynnt var stuttu síðar að ofskammtur hafi leitt til andlátsins.

Cartagena og samverkamenn hans héldu áfram dreifingu og sölu á efnunum þrátt fyrir að hafa vitað af andláti Williams, að því er fram kemur í dómsskjölum. Hinn 39 ára Cartagena hefur játað sök. Brotið gæti varðað 5 til 40 ára fangelsi.

„Við munum halda áfram að draga fíkniefnasala til ábyrgðar vegna gjörða sinna. Þeir dreifa þessu eitri og notfæra sér fólk með fíknivanda, og valda þannig ótímabærum dauðsföllum  í okkar samfélagi,“ sagði lögmaðurinn Damien Williams fyrir rétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert