Varað við háskalegu heróíni í Noregi

Frá Háskólasjúkrahúsinu í Ósló berast fregnir af óvenjumörgum hjartastoppstilfellum heróínsjúklinga …
Frá Háskólasjúkrahúsinu í Ósló berast fregnir af óvenjumörgum hjartastoppstilfellum heróínsjúklinga og er sendingu með annaðhvort of sterku efni eða einhvers konar ólyfjan íblandaðri kennt um. Ljósmynd/Háskólasjúkrahúsið í Ósló/Anders Bayer

Háskólasjúkrahúsið í Ósló í Noregi greinir frá óvenjulegum fjölda hjartastoppstilfella meðal heróínneytenda þar í borginni síðustu daga, en þrjú slík tilfelli hafa verið til meðhöndlunar á bráðadeild sjúkrahússins sem er töluvert meira en vanalegt er að sögn talsmanna þess. Lést einn þessara sjúklinga á sjúkrahúsinu um helgina.

Arild Knutsen, formaður Samtaka um manneskjulega fíkniefnastefnu, Foreningen for human narkotikapolitikk, segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að orðrómur sé á kreiki um heróínsendingu sem annaðhvort sé blönduð einhverri ólyfjan eða of sterk. Lýsir hann því sem svo að þarna sé komið efni sem sé óvenjudökkt á lit og virki olíukennt þegar það er komið í sprautu.

„Fólk ætti að vera sérstaklega vart um sig“

„Ég hef talað við starfsfólk í lágþröskuldavinnunni og það hefur áhyggjur af of sterku heróíni í sendingu,“ segir Knutsen og vísar þar til þeirra sem starfa með þeim neytendum sem hve höllustum fæti standa.

Aleksander Rygh Holten, yfirlæknir á bráðadeild háskólasjúkrahússins, segir nú unnið að því að greina innihald þessa nýja heróíns og biður fíkniefnaneytendur borgarinnar, einkum þá er neyta heróíns, að gæta sín í hvívetna á vágesti þessum.

„Fólk ætti að vera sérstaklega vart um sig á næstunni,“ segir Holten við NRK, „notið litla skammta, verið ekki ein og gætið að hvert öðru,“ svarar hann spurningu útvarpsins um hvaða boð hann vilji færa sprautuneytendum.

Frá Tønsberg, hundrað kílómetra suður af Ósló, berast einnig fregnir af óþekktu heróíni í umferð að sögn Knutsens og kveður hann neytendur þar hafa lent í vandræðum. „Þú veist aldrei hvað þú færð á morgun, þessi markaður lýtur engum reglum,“ segir formaðurinn sem hefur áhyggjur af gangi mála að eigin sögn. „Tugir manns gætu látist af völdum hættulegs heróíns,“ segir hann.

NRK

Dagbladet

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert