Fallið gæti reynst Biden stórt

Forsetinn féll kylliflatur við útskriftarathöfn flughersins í gær, en það …
Forsetinn féll kylliflatur við útskriftarathöfn flughersins í gær, en það kann ekki að hafa góð áhrif á fylgi hans í komandi kosningum. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti er „í lagi“ að sögn talsmanna Hvíta hússins, en forsetinn hrasaði á sviði í gær. Ekki var það í fyrsta sinn sem forsetinn hrasar eða dettur fyrir framan fjölmiðla, en gagnrýnendur hafa dregið getu hans til að sinna embættinu í efa.

Forsetinn var viðstaddur útskrift hjá bandaríska flughernum og afhenti nemendum prófskírteini sín.

Á leið niður af sviðinu, að athöfn lokinni, hrasaði hann um sandpoka, en lífverðir hans voru fljótir að hjálpa honum aftur á fætur.

Biden hafði staðið á sviðinu í um eina og hálfa klukkustund og tekið í höndina á 921 útskriftarnema þegar hann féll.

„Það er í lagi með hann“

„Ég var sandpokaður,“ sagði forsetinn glettnislega við fjölmiðla í Hvíta húsinu síðar um kvöldið. 

Samskiptafulltrúi Hvíta Hússins, Ben LaBolt, sagði einnig á Twitter:

„Það er í lagi með hann. Það var sandpoki á sviðinu á meðan hann tók í hendurnar á fólki.“

Talinn bera merki um elliglöp

Gagnrýnendur Bidens hafa ítrekað bent á aldur hans og sagt hann of gamlan til að sinna embættinu, en hann er 80 ára að aldri. Þess má geta að Donald Trump, fyrirrennari hans í embætti, er 76 ára.

Forsetar landsins mega ekki vera yngri en 35 ára gamlir, en ekkert aldurhámark er fyrir embættið.  

Kann­an­ir sýna að meiri­hluti kjós­enda tel­ur ald­ur for­set­ans vinna gegn hon­um í komandi forsetakosningum, en margir telja sig hafa séð merki um elliglöp hjá honum.

Ef fram fer sem horfir mun Biden etja kappi við Trump að nýju í næstu forsetakosningunum. Atvik á borð við þetta gætu orðið efniviður fyrir gagnrýni andstæðingsins og gæti því fallið reynst Biden dýrkeypt.

Læknir staðfestir hreysti forsetans

Í aðdraganda forsetakosninganna árið 2020 uppnefndi Trump andstæðing sinn „syfjaða Joe“ (e. Sleepy Joe).

Kallaði hann Biden iðulega syfjaða Joe í ræðum sínum og dró vitsmunalega getu hans, til að sinna embættinu, í efa. 

Biden hafði samt sem áður betur. 

Læknir Hvíta hússins hefur margoft staðfest að forsetinn sé við góða heilsu og hafi vitsmunalega getu til að sinna embættinu. Það eina sem að honum ami séu taugaskemmdir í fótum hans, en að sögn læknisins hefur það einungis áhrif á göngulag forsetans, sem getur verið eilítið stíft. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert