Biden féll kylliflatur

Biden féll kylliflatur við útskrift flugnema.
Biden féll kylliflatur við útskrift flugnema. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti varð fyrir því óláni að falla til jarðar við útskrift flugnema í bandaríska hernum. Í framhaldinu má sjá Biden þurfa stuðning lífvarða sinna til að komast á fætur.

Hann er elsti maðurinn sem gegnt hefur embætti forseta Bandaríkjanna og stendur á áttræðu. Eftir fallið fór umsvifalaust á kreik umræða um það að forsetinn geti ekki tekið annað kjörtímabil vegna aldurs en forsetakosningar eru í nóvember á næsta ári. 

Hvað sem því líður hafði Biden staðið í um eina og hálfa klukkustund þegar atvikið kom upp. Tók hann í hendur 921 útskriftanema og féll hann við þegar athöfnin var að lokum komin.

Eftir að Biden rís upp má sjá hann benda á sandpoka á jörðinni sem hann kenndi fallinu um. Talsmaður Hvíta hússins sagði að forsetinn hafi fallið um pokann og að ekkert amaði að honum þrátt fyrir byltuna. 

Kannanir sýna að meirihluti kjósenda telur aldur forsetans vinna gegn honum.

mbl.is