Lögreglan í Minneapolis beiti oft of miklu valdi

Fólk safnast saman við mynd listamannsins Kenny Altifor af George …
Fólk safnast saman við mynd listamannsins Kenny Altifor af George Floyd sem lést eftir að lögreglumaðurinn Derek Chauvin kraup á hálsi hans í heilar níu mínútur. AFP/Angela Weiss

Lögreglan í Minneapolis í Minnesota-ríki Bandaríkjanna mismunar minnihlutahópum og beitir of miklu valdi. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna. Rannsóknin var framkvæmd í kjölfar morðsins á George Floyd sumarið 2020.

Í skýrslu ráðuneytisins segir að lögreglan í Minneapolis beiti of miklu valdi í störfum sínu, „þar með talið óréttmætu og banvænu valdi“. Þar segir einnig að lögreglan mismuni svörtu fólki og fólki af frumbyggjaættum með ólögmætum hætti.

Skýrslan gerir grein fyrir mörgum tilvikum, bæði fyrir og eftir andlát Floyds, þar sem lögregla í Minneapolis hefur skotið óvopnað fólk og fólk sem engin ógn stafaði af.

Floyd var myrtur af lögreglu þann 25. maí 2020 þegar verið var að handtaka hann fyrir að nota falsaðan seðil í verslun. Þá hélt lögreglumaðurinn Derek Chauvin öðru hné á hálsi Floyds í tæpar tíu mínútur, með þeim afleiðingum að hann kafnaði. Þrír aðrir lögreglumenn fylgdust aðgerðalausir með. Andlát Floyds leiddi til mótmæla á landsvísu vegna lögregluofbeldis og mismununar lögreglu í garð svartra einstaklinga.

Drápu konu sem tilkynnti kynferðisbrot

Meðal þeirra tilvika sem upp eru talin í skýrslunni er dæmi um að lögreglan hafi drepið konu sem hafði hringt í neyðarlínuna til þess að tilkynna kynferðisofbeldi. Einnig er minnst á að lögregla hafi drepið mann í gæsluvarðhaldi. Í skýrslunni er einnig bent á tíð tilvik þar sem lögreglan beitir of miklu valdi, oft með banvænum afleiðingum.

Merrick Garland, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að borgaryfirvöld í Minneapolis hafi í meginatriðum samþykkt hertara eftirlit dómsmálaráðuneytisins á lögreglunni þar. Hann segir að rannsóknin sýni fram á að lögreglan í Minneapolis brjóti oft gegn stjórnarskrárbundnum réttindum og að andlát Floyds hafi veitt vandamálinu aukna athygli.

„[Andlát Floyds] hefur haft óriftanleg áhrif á samfélagið í Minneapolis, á landið okkar og um allan heim,“ segir Garland á blaðamannafundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert