Árásum gegn Bandaríkjamönnum fjölgar

Íran og Bandaríkin hafa lengi elt saman grátt silfur. Myndin …
Íran og Bandaríkin hafa lengi elt saman grátt silfur. Myndin sýnir eldflaug taka á loft í Íran árið 2020 sem beint var að herstöð Bandaríkjanna í Írak. AFP

Sjálfseyðingardróni hæfði í dag flugherstöð í Írak sem hýsir bandaríska hermenn. Þetta herma heimildir AFP-fréttastofunnar, en varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna kveðst ekki geta staðfest að slík árás hafi átt sér stað.

Vopnaðar sveitir vígamanna, hliðhollar stjórnvöldum í Íran, hafa hótað að ráðast gegn Bandaríkjamönnum í Írak vegna stuðnings ríkisstjórnarinnar í Washington við Ísrael.

„Vélfyglið þaut til jarðar innan herstöðvarinnar,“ hefur AFP eftir heimildarmanni innan hersins sem ekki vildi láta nafns síns getið, en hann vísar til herstöðvarinnar Ain al-Assad í héraðinu Anbar í vesturhluta Írak.

Tekur hann fram að dróninn hafi hvorki valdið tjóni né áverkum á fólki.

Reykur stígur til himins eftir átök í Írak. Mynd úr …
Reykur stígur til himins eftir átök í Írak. Mynd úr safni. AFP

Íslamska andspyrnan í Írak

Í yfirlýsingu á Telegram-rásum, sem áðurnefndar sveitir vígamanna beita fyrir sig, er árásinni lýst á hendur hóps sem kallar sig „Íslömsku andspyrnuna í Írak“.

Annar heimildarmaður AFP innan íröksku öryggissveitanna segir að tveir sjálfseyðingardrónar hafi komið við sögu í árásinni.

„Komið var í veg fyrir þann fyrri og sá síðari hrundi til jarðar vegna bilunar,“ segir heimildarmaðurinn.

Pentagon segist ekki hafa verið upplýst um árásina, eins og áður sagði. „Við höfum ekki séð neinar skýrslur sem staðfesta að árás hafi átt sér stað í dag,“ segir embættismaður innan varnarmálaráðuneytisins sem einnig baðst nafnleysis.

Þrjár herstöðvar orðið fyrir fimm árásum

Frá því á miðvikudag hafa þrjár herstöðvar í Írak, sem hýsa hermenn bandalagsþjóða undir forystu Bandaríkjanna, orðið skotmörk fimm mismunandi árása. Um er að ræða herstöðvarnar Ain al-Assad, Al-Harir-herstöðina í norðurhluta Írak og svo herbúðir nærri flugvellinum í Bagdad.

Alls eru 2.500 hermenn Bandaríkjanna í herstöðvunum þremur, ásamt um 1.000 hermönnum annarra ríkja bandalagsins sem sett var á fót til að berjast gegn samtökunum Ríki íslams. 

Aðrar vígasveitir sem bundnar eru Íran tryggðarböndum hafa haft í frammi auknar hótanir við Bandaríkin. Ein þeirra, Hisbollah-herfylkið í Írak – sem ekki skal rugla saman við Hisbollah-vígasveitina í Líbanon – hefur krafist þess að bandarískar hersveitir yfirgefi Írak.

„Annars munu þær fá að bragða á logum vítis.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert