Íran varar Ísrael og Bandaríkin við

Hossein Amir-Abdollahian, utanríkisráðherra Írans.
Hossein Amir-Abdollahian, utanríkisráðherra Írans. AFP/Khaled Desouki

Utanríkisráðherra Írans hefur varað Ísrael og Bandaríkin við því að ástandið í Mið-Austurlöndum geti farið úr böndunum vegna stríðs Ísraels og Hamas.

„Ég vara Bandaríkin og umboðsmenn þeirra [Ísrael] við því að ef þeir stöðva ekki glæpinn gegn mannkyni og þjóðarmorð á Gasa, þá er allt mögulegt hvenær sem er og átökin munu fara úr böndunum,“ sagði Hossein Amir-Abdollahian, utanríkisráðherra Írans, á blaðamannafundi í dag.

Tugþúsundir bíða innrásar

Heilbrigðisyfirvöld á Gasa, sem lúta stjórn hryðjuverkasamtakanna Hamas, segja minnst 4.651 manns hafa fallið í Gasa frá því að stríðið hófst 7. október. Þá séu 14.245 manns særðir.

Ísraelsher tilkynnti í gær að hann hefði fært sprengjuárásir á Gasasvæðið upp á næsta stig. Sagðist herinn vilja draga úr mögulegri hættu sem steðjað gæti að fótgönguliðum þegar þeir munu hefja innrás sína í Gasa.

Tugþúsundir ísraelskra hermanna hafa komið sér fyrir við landamærin að Gasa og bíða þar innrásar sem embættismenn hafa lofað að hefjast muni bráðlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert