Trump skortir reiðufé vegna áfrýjunar

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP/Kamil Krzaczynski

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, á ekki nægt reiðufé til að áfrýja 464 milljóna dala, eða um 64 milljarða króna, sekt sem honum hefur verið gert að greiða í tengslum við fjársvikamál.

Lögmenn hans sögðu frá þessu í gær og fyrir vikið getur farið svo að gera þarf einhverjar af eignum hans upptækar.

Trump, sem býður sig fram fyrir hönd Repúblikana í komandi forsetakosningum, ætlar að áfrýja dómi sem féll í New York í febrúar. 

Fyrst þarf hann annaðhvort að greiða sektina eða gefa út skuldabréf með allri upphæðinni. Alls hafa 30 starfsmenn tryggingafélaga hafnað ósk hans um aðstoð, sögðu lögmenn hans.

„Við munum berjast og sigra þetta gabb,” sagði Trump og talaði um nornaveiðar gegn sér.

Dómarinn Arthur Engoror kvað upp þann dóm að Trump og fyrirtæki hans hefði á ólöglegan hátt látið líta út fyrir að ríkidæmi hans væri meira en það var og ýkt þannig virði eigna hans í von um að fá betri kjör á bankalánum eða tryggingum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert