Alþjóðasamfélagið fordæmir hryðjuverkin í Rússlandi

Sérsveitarmaður stendur vörð við Crocus City.
Sérsveitarmaður stendur vörð við Crocus City. AFP/Olga Maltseva

Alþjóðasamfélagið fordæmir hryðjuverkaárás Ríkis íslams á Crocus City-tónleikahöllina í útjaðri Moskvu í Rússlandi í kvöld.

Að minnsta kosti 40 hafa látið lífið en líklegt að sú tala eigi eftir að hækka.

Heilbrigðisráðherra Rússlands, Mikhaíl Múrashkó, segir að 115 manns hafi verið fluttir á spítala, þar á meðal fimm börn.

Eitt barnanna er í lífshættu. Af 110 follorðnum sjúklingum eru 60 taldir vera alvarlega særðir.

Hafa náð tökum á eldinum

Hryðju­verka­menn klædd­ir felu­lit­um hófu skot­hríð á tón­leik­um rússnesku rokksveitarinnar Piknikí.

Þeir köstuðu þar einnig hand­sprengju eða eld­sprengju en slökkviliði hefur tekist að ná tökum á eldinum.

Meðal þeirra sem hafa fordæmt árásina eru Antonio Guterres, fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, Emmanuel Macron Frakklandsforseti, Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, og Júlía Navalnaja, ekkja rúss­neska stjórn­ar­and­stæðings­ins Al­ex­eis Navalnís, svo aðeins fá séu nefnd.

Öllum stórum viðburðum aflýst í landinu

Fyrr í þessum mánuði varaði bandaríska sendiráðið í Rússlandi við því að öfgahópar væru að skipuleggja að ráðast á stórar samkomur í Moskvu, þar á meðal á tónleika.

Rúss­neska leyniþjón­ust­an (FSB) sagði þó að starfs­menn leyniþjón­ust­unn­ar hefðu komið í veg fyr­ir hugs­an­lega hryðju­verka­árás Ríki íslams á sam­kundu­hús gyðinga í Moskvu

Menningarmálaráðuneyti Rússlands hefur aflýst öllum stórum viðburðum sem áttu að vera í Rússlandi um helgina vegna árásarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert