Skotárás í tónleikahöll í Moskvu

Lögregla og aðrir viðbragðsaðilar fyrir utan tónleikahöllina í Krasnogorsk.
Lögregla og aðrir viðbragðsaðilar fyrir utan tónleikahöllina í Krasnogorsk. AFP

Talið er að fimmtán manns séu látnir og 35 sárir eftir skotárás í tónleikahöllinni Crocus City Hall í Krasnogorsk, skammt frá rússnesku höfuðborginni Moskvu. Myndir sem Reuters-fréttastofan birti fyrir nokkru sýndu enn fremur logahaf á svæðinu umhverfis bygginguna eða í henni sjálfri.

Það er fjölmiðillinn Moscow Times sem greinir frá því að fimmtán hafi týnt lífi sínu en aðrir rússneskir fjölmiðlar tala um tólf látna.

Crocus City Hall-tónleikahöllin í Krasnogorsk, skammt frá Moskvu. Eldur logar …
Crocus City Hall-tónleikahöllin í Krasnogorsk, skammt frá Moskvu. Eldur logar í byggingunni en þar hófu þrír menn í felulitaklæðum skothríð fyrr í dag. Ljósmynd/Samfélagsmiðillinn X

RIA-fréttastofan greinir frá því að minnst þrír menn í felulitaklæðum hafi stormað inn í bygginguna og hafið þar skothríð. Fjöldi fólks hafi lagst á gólf hússins til að verða síður skotmörk og legið þar um stundarfjórðungs hríð eða lengur áður en það tók til við að koma sér út úr húsinu.

Uppfært kl. 19:28:

Rússnesk yfirvöld hafa nú staðfest að árásin hafi átt sér stað og að þar hafi hvort tveggja orðið mannfall auk þess sem fjöldi hafi særst. Misvísandi tölur berast þó af fjölda látinna en Russian Times greinir frá 40 látnum og hundrað særðum og segir að talið sé að allt að 6.200 manns hafi verið inni í Crocus City Hall þegar árásarmennirnir létu til skarar skríða.

Crocus-tónleikahöllin í ljósum logum en þar stóðu tónleikar rússnesku rokksveitarinnar …
Crocus-tónleikahöllin í ljósum logum en þar stóðu tónleikar rússnesku rokksveitarinnar Picnic yfir þegar árásarmennirnir létu til skarar skríða. AFP/Sergei Vedyshkin

Uppfært kl. 19:55:

Reuters-fréttastofan hefur það eftir rússneskum miðlum að einhver eða einhverjir árásarmannanna þriggja hafi víggirt um sig í byggingunni svo lögregla fái síður sótt að þeim en árásin hófst meðan á tónleikum rússnesku rokksveitarinnar Picnic stóð í höllinni.

Segir vitni sem fréttamaður Reuters ræðir við að það hafi heyrt skothvelli að baki sér og skömmu síðar hafi ofsahræðsla gripið um sig og tónleikagestir ruðst hver um annan þveran að rúllustiga niður að útgangi byggingarinnar. „Allir voru hlaupandi og öskrandi,“ segir vitnið.

Samkvæmt fréttastofunni Tass hafa rússnesk yfirvöld nú gefið það út að um hryðjuverkaárás sé að ræða.

Hér má sjá myndskeið af YouTube-rás breska blaðsins The Telegraph

Russian Times

The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert