Eina leiðin að sekta ökumenn

Séð yfir Reykjanesbraut.
Séð yfir Reykjanesbraut. Ljósmynd/Vegagerðin

Verkstjóri hjá Íslenskum aðalverktökum segir að atvinnubílstjórar sem eiga að vera öruggari bílstjórar og sýna öðrum fordæmi í umferðinni séu frekustu og „aggresívustu“ ökumenn sem aka um þjóðvegina.

Þetta sagði Ágúst Jakob Ólafsson, verkstjóri hjá Íslenskum aðalverktökum, á morgunfundi Vegagerðarinnar í morgun þar sem yfirskrift fundarins var: Aktu varlega - mamma og pabbi vinna hér. 

Aktu varlega - mamma og pabbi vinna hér er vitundarátak sem fjöldi verktaka mun taka þátt í með því að setja upp skilti til að minna fólk á að aka varlega, enda séu mæður, feður, ömmur, afar, frændur og frænkur að störfum.

Á fundinum var fjallað um öryggi starfsfólks við vegavinnu og ræddi Jakob meðal annars um þá framkvæmdir sem eiga sér stað á Reykjanesbraut en í síðustu viku var opnuð þar hjáleið þar sem hraðinn hefur verið tekinn niður í 50 kílómetra.

Mældist á 174 km hraða á hjáleiðinni

„Við erum búnir að lækka hámarkshraðann á öllu framkvæmdasvæðinu sem er 4,5 kílómetrar í 70 km en á tveimur stuttum hjáleiðunum niður í 50 km,“ segir Jakob.

Hann segir að það hafi verið settir upp broskarlar sem segja til um það hvort ökumenn séu að keyra of hratt eða ekki. Jakob segir að meðalhraðinn í gegnum hjáleiðirnar sé 58 km en sá sem hafi ekið hraðast mældist á 174 km hraða þegar hann var að koma út úr hjáleiðinni. Það hafi gerst laust fyrir klukkan 10 á þriðjudagsmorgni.

Sérstök skilti sem minna vegfarendur á mikilvægi þess að fara …
Sérstök skilti sem minna vegfarendur á mikilvægi þess að fara varlega, verða sett upp á nokkrum framkvæmdastöðum við vegi landsins í sumar. Ljósmynd/Vegagerðin

Jakob segir að mjög margir séu að keyra í gegnum hjáleiðirnar á yfir 100 km hraða en um 20 þúsund bílar fara um Reykjanesbrautina á hverjum degi.

„Þegar svona framkvæmdir eru í gangi þá er verið að vinna á öllu svæðinu þótt við séum ekki beint á veginum. Það eru bílar að þvera veginn og þarna er stöðug hætta. Fólk verður að fara eftir merkingum og við verðum að ná niður hraðanum. Annars endar þetta með slysi.“

Sameinast um að ná niður umferðarhraðanum

Jakob veltir því fyrir sér hvað sé hægt að gera í stöðunni.

„Ég held að það sé bara ein leið í þessu. Hún er sú að við fáum að setja upp myndavélar og sekta ökumenn. Ég legg til að Vegagerðin fá sektagreiðslurnar og noti þær beint í vegaframkvæmdirnar. Við værum fljót að ná inn milljónum af þeim 20 þúsund bílum sem aka um Reykjanesbrautina á dag,“ segir Jakob.

Jakob segir að Vegagerðin og verktakar verði að sameinast um að fara í alvöru aðgerðir til þess að ná niður umferðarhraðanum svo ekki hljótist af alvarleg slys eða banaslys. Hann segir að það styttist í það með hverjum deginum sem líður verði ekki breyting á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert