Rússar skila sex börnum heim til Úkraínu

Viðburður frá því í síðasta mánuði þegar næstum 50 börn …
Viðburður frá því í síðasta mánuði þegar næstum 50 börn fóru aftur heim til Úkraínu frá Rússlandi með aðstoð stjórnvalda frá Katar. AFP/Karim Jaafar

Rússar hafa skilað aftur heim til fjölskyldna sinna í Úkraínu sex börnum sem höfðu verið numin þaðan á brott vegna átakanna þar í landi.

Stjórnvöld í Katar höfðu milligöngu í málinu, segir rússneska ríkisrekna fréttastofan TASS.

Úkraínsk stjórnvöld telja að Rússar hafi numið á brott meira en 19 þúsund börn frá landinu síðan hernaðaraðgerðir þeirra hófust þar árið 2022, en aðeins 400 börnum hefur verið skilað aftur heim til fjölskyldna sinna.

Hópur drengja á aldrinum sex til 17 ára sameinaðist fjölskyldum sínum á viðburði sem fór fram í sendiráði Katars í Moskvu, að sögn TASS. Sendiherra Katar var viðstaddur ásamt  Mariu Lvova-Belova, sem hefur umsjón með réttindum barna í Rússlandi.

Maria Lvova-Belova.
Maria Lvova-Belova. AFP/Karim Jaafar

Lvova-Belova er nú eftirlýst af Alþjóðaglæpadómstólnum fyrir að nema börn ólöglega á brott frá Úkraínu til Rússlands. Rússnesk stjórnvöld hafa neitað þessum ásökunum.

Frá júlí í fyrra hefur Katar aðstoðað við að koma tugum barna aftur til fjölskyldna sinna sem voru tekin frá heimalandi sínu og flutt til Rússlands.

Sum börnin misstu foreldra sína í átökum eða voru aðskilin frá umönnunaraðilum sínum vegna hernaðar Rússa. Önnur börn höfðu verið vistuð á úkraínskum munaðarleysingjahælum sem Rússar hertóku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka