Hvetur til þess að grunni vaxtabóta verði breytt strax

Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, kvaddi sér hljóðs í upphafi þingfundar á Alþingi í morgun og sagði nauðsynlegt að breyta grunni fyrir vaxtabætur vegna mikillar hækkunar á fasteignamati að undanförnu. Sagði Jóhanna að það væri skylda Alþingis að breyta þessu nú svo skerðingin gangi ekki yfir heimilin í landinu í sumar þegar álagning skatta verður birt.

Jóhanna sagðist hafa látið reikna út dæmi um hvaða áhrif hækkun á fasteignamati geti haft. Þannig hafi einstætt foreldri með 3 milljóna króna árstekjur, 5 milljóna króna eign og 15 milljóna króna skuldir fengið 218 þúsund í vaxtabætur á síðasta ári en fái engar bætur í ár. Einstaklingur með sömu tekjur og eignir hafi fengið 169 þúsund krónur í bætur í fyrra en fái ekkert nú.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sagði það rétt að mikil hækkun hafi orðið á verði eigna en vaxtabótakerfið væri hugsað þannig, að þeir sem ættu meira fá minni bætur frá ríkinu.

Árni sagði að það sem ekki fylgdi með í máli Jóhönnu væri, að samhliða þessari eignaaukningu gæti einnig verið skuldaaukning og niðurstaðan gæti orðið sú, að vegna nettóskuldastöðu verði engar breytingar á bótunum. Árni sagði, að þessar upplýsingar liggi ekki fyrir og muni ekki liggja fyrir fyrr en í ágúst og eðlilegt væri að bíða með hugsanlega endurskoðun þangað til að allar upplýsingar lægju fyrir. Þá sagði Árni, að í gangi væri endurskoðun á fyrirkomulagi húsnæðislána og niðurstaðan þar gæti haft áhrif á það hvernig vaxtabótum verður háttað.

Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs sögðu að skerðing vaxtabótanna lenti harðast á því fólki, sem reyndi að komast hjá því að skulda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert