Dæmdur í fangelsi fyrir að stinga föður sinn með hnífi

Átján ára piltur var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í tólf mánaða fangelsi, þar af níu mánuði skilorðsbundið, fyrir að stinga föður sinn með hnífi á veitingastað í eigu fjölskyldunnar. Stakk pilturinn hnífnum í hægri síðu föðurins með þeim afleiðingum að hann hlaut lífshættu­­lega áverka við það að hnífurinn gekk í gegnum lifrarblað og skaddaði hægra nýra hans.

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að mál þetta er um margt sérstætt og óvenjulegt. En faðir piltsins hafði ráðist á hann með líkamlegu ofbeldi skömmu áður en til hnífsstungunnar kom. Áttu þar í hlut faðir og sonur, annar tæplega fimmtugur og hinn 18 ára. Þá liggur nægjanlega fyrir að faðirinn hafi ítrekað reynt að egna son sinn til reiði inni á veitingastaðnum, kallað hann aumingja og að minnsta kosti einu sinni rétt honum hníf og beinlínis skorað á ákærða að drepa hann. Er vafalaust, ekki síst í ljósi forsögu málsins og fyrri samskipta feðganna sömu nótt, að pilturinn hafi verið í mikilli geðshræringu þegar hann síðan lagði til föðurins, að því er segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Á hinn bóginn verði ekki horft framhjá því að atlaga piltsins var sérlega hættuleg, að hún beindist að mikilvægum hagsmunum og var til þess fallin að valda miklu líkamstjóni, þótt betur hafi farið en á horfði í upphafi. Að öllu þessu virtu og með hliðsjón af saka­ferli piltsins og hrein­skilins­legum framburði hans við rannsókn og meðferð málsins þykir refsing hæfi­lega ákveðin fangelsi í tólf mánuði.

„Með ofangreind atriði í huga, sér í lagi aldur ákærða og hinar sérstöku aðstæður að broti hans, sem og því að hann hefur ekki áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi, svo kunnugt sé og loks með hliðsjón af því samdóma áliti dómkvaddra matsmanna að afplánun refsingar í tilviki ákærða, sem teljist óvenju óharðnaður og saklaus miðað við aldur, geti haft skaðlegar afleiðingar á líf drengsins og framtíð, þykir rétt að kveða svo á um að ákærði skuli njóti heimilda 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955, með þeim hætti að fresta skuli fullnustu níu mánaða dæmdrar refsingar og sá hluti hennar falla niður að liðnum fimm árum frá dómsuppsögu, enda haldi ákærði almennt skilorð téðra lagagreina.

Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald, sem ákærði hefur sætt óslitið frá 17. júní 2006, sbr. 76. gr. hegningarlaganna.

Einnig þykir rétt, með hliðsjón af áliti dómkvaddra mats­manna, að ákærði skuli í eitt ár frá dóms­uppsögu hlíta sérstöku umsjónarskilorði 1. töluliðs 3. mgr. 57. gr. hegningar­laganna, með það í huga að hann fái notið hugrænnar atferlismeðferðar af hálfu sérfræðings í því skyni að vinna bug á reiði í garð föður síns og til þess að byggja upp og móta eigin framtíð í skjóli hins hörmulega verknaðar," að því er segir í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert