Allt að 28% verðhækkun á fiski í verslunum á höfuðborgarsvæðinu

Verð á fiski hefur í flestum tilvikum hækkað frá síðustu …
Verð á fiski hefur í flestum tilvikum hækkað frá síðustu könnun ASÍ Sverrir Vilhelmsson

Verð á ferskum fiski hefur hækkað umtalsvert frá því í upphafi árs, að því er fram kemur í nýrri verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði í verslunum á höfuðborgarsvæðinu í gær, miðvikudaginn 20. september. Meðalverð flestra tegunda hefur hækkað um u.þ.b 10% frá því í janúar, en dæmi eru um allt að 28% verðhækkun.

Kannað var verð á 29 tegundum fersks fiskmetis í fiskbúðum og stórmörkuðum sem hafa fiskborð í verslunum sínum og reyndist mikill verðmunur milli einstakra verslana. Í flestum tilvikum var yfir 50% munur á hæsta og lægsta verði í könnuninni og í mörgum tilvikum reyndist verðmunurinn mun meiri.

Allt að 113% verðmunur á heilli hausaðri rauðsprettu

Mestur verðmunur var 113% á kílóverði af heilli hausaðri rauðsprettu, sem kostaði allt frá kr. 375 í Fiskbúðinni Trönuhrauni í Hafnarfirði, upp í kr. 800 í Fiskbúðinni Arnarbakka. Munur á hæsta og lægsta kílóverði af útvötnuðum saltfiskflökum var 102%, en þau voru dýrust í Gallerý fisk í Nethyl kr. 1.690 en ódýrust í Fjarðarkaupum kr. 838.

Lægsta verðið í könnuninni var oftast í fiskborði Fjarðarkaupa í Hafnarfirði, eða í 8 tilvikum en hæsta verðið var oftast í versluninni Gallerý fiskur við Nethyl í Reykjavík eða í 11 tilvikum.

Verðlagseftirlitið kannaði síðast verð á fersku fiskmeti þann 10. janúar sl. og hefur meðalverð á öllum tegundum sem kannaðar voru í báðum könnun hækkað, að tindabikkju undanskilinni. Meðalverð flestra tegunda hefur hækkað um u.þ.b. 10% frá því í janúar, en dæmi eru um mun meiri hækkanir. Mest hækkun hefur orðið á meðalverði á heilum slægðum laxi, sem hefur hækkað úr kr. 671 kílóið í kr. 856, eða um 28%. Meðalverð á nýjum kinnum, útvötnuðum saltfiski í bitum og smálúðuflökum hefur hækkað um u.þ.b. 20% milli kannana.

Ýsuflök hafa hækkað um 10%

Ýsa er sá fiskur sem oftast er á borðum margra heimila. Meðalverð á roðflettum beinhreinsuðum ýsuflökum hefur hækkað um 10% frá því í janúar, úr kr. 1.011 í kr. 1.113. Mest hækkun á ýsuflökum hefur orðið hjá Fiskisögu við Sundlaugaveg, sem áður hét Fiskbúðin Sundlaugavegi. Þar kostaði kílóið kr. 880 í byrjun árs, en kostar nú kr. 1.090 sem er 24% verðhækkun. Hjá Fiskisögu við Hringbraut sem áður hét Fiskbúðin Árbjörg, hafa ýsuflökin hækkað um 23%, í Gallerý fisk um 20% og í fiskborði Hagkaupa um 18%.

Sú breyting hefur nýlega orðið í rekstri fiskverslana að sex fiskbúðir í Reykjavík hafa skipt um eigendur og eru nú reknar af sama aðilanum undir nafninu Fiskisaga. Þessar verslanir voru áður Fiskbúðin Árbjörg við Hringbraut, Fiskbúðin Vegamót við Nesveg, Fiskbúðin Hafrún í Skipholti, Fiskbúðin Sundlaugavegi, Sjávargallerý við Háaleitisbraut og Fiskbúðin Vör við Höfðabakka. Auk þessara verslana tóku þátt í könnuninni Fiskbúðin Freyjugötu, Nóatún við Hringbraut, Hagkaup í Skeifunni, Fiskbúðin Hafberg í Gnoðavogi, Fiskbúðin Arnarbakka og Gallerý fiskur Nethyl. Í Kópavogi var verð kannað í Fiskbúðinni Hófgerði og Fiskbúðinni okkar Smiðjuvegi og í Hafnarfirði í Fiskbúðinni Lækjargötu, Fiskbúðinni Trönuhrauni, Samkaupum-Úrval við Miðvang og í Fjarðarkaupum Hólshrauni, að því er segir í frétt á vef ASÍ.

Melabúin við Hagamel og Hafið fiskiprinsinn í Hlíðarsmára Kópavogi heimiluðu ekki aðilum frá verðlagseftirlitinu að taka niður verð í verslunum sínum, samkvæmt frétt á vef ASÍ.

Nánari upplýsingar um könnunina á vef ASÍ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert