Borið hefur á úrsögnum úr Sjálfstæðisflokknum

Eftir Ómar Friðriksson omfr@mbl.is
Brögð eru að því að flokksbundnir sjálfstæðismenn hafi sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum að undanförnu og tilgreint kosningu Árna Johnsen í annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjörinu í Suðurkjördæmi sem ástæðu úrsagnarinnar.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Árni Johnsen náði mjög góðum árangri í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi og hefur greinilega mjög breiðan stuðning til setu á Alþingi meðal þeirra sem tóku þátt í prófkjörinu," segir Geir H. Haarde. „Hann hefur tekið út þá refsingu sem hann var dæmdur í og fær núna annað tækifæri til að hasla sér völl í stjórnmálum og ávinna sér traust kjósenda á nýjan leik. Ég treysti honum til þess að fara vel með það tækifæri en ummæli hans um að honum hafi orðið á tæknileg mistök eru mjög óheppileg og ekki rétt lýsing á þeim brotum sem hann var dæmdur fyrir," segir Geir.

Geir segist einnig telja að ályktun stjórnar Sambands ungra sjálfstæðismanna um þetta mál, sem birt var í Morgunblaðinu sl. fimmtudag, sé skynsamleg.

Spurður hvort eitthvað hafi verið um úrsagnir úr Sjálfstæðisflokknum vegna þessa máls sagði Geir: „Það eru brögð að því að fólk hafi sagt sig úr flokknum vegna þessa. Ég tel að það sé mjög miður, vegna þess að þarna hefur raðast upp mjög sigurstranglegur listi eins og í öðrum kjördæmum þar sem niðurstaða liggur fyrir. Ég harma það ef fólk tekur þá afstöðu að segja skilið við flokkinn út af þessari niðurstöðu prófkjörsins í Suðurkjördæmi," segir hann.

Í hnotskurn
» Stjórn SUS sagðist í ályktun í vikunni gera þá kröfu til Árna Johnsen að hann sýndi auðmýkt þegar hann ræðir um þau brot sem hann var sakfelldur fyrir. Tilefnið var ummæli Árna í fjölmiðlum um að hann hefði gert "tæknileg mistök".
» Árni fékk góða kosningu í 2. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Flokkurinn fékk þrjá þingmenn kjörna í kjördæminu í síðustu kosningum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert