Dæmd í fangelsi fyrir að bera rangar sakargiftir á mann

Héraðsdómur Austurlands dæmdi í dag konu á þrítugsaldri í 9 mánaða fangelsi, þar af 7 mánuði skilorðsbundið, fyrir að bera rangar sakargiftir á karlmann. Konan kærði manninn fyrir að hafa reynt að nauðga sér eða reyna að nauðga sér um borð í skipi, sem lá í Vopnafjarðarhöfn.

Við tilkynninguna hélt lögregla af stað frá Egilsstöðum auk þess sem stúlkan var flutt á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri þar sem teymi var til staðar til að taka við henni og annast réttarlæknisfræðilega skoðun. Skipverjinn var handtekinn og færður í fangaklefa á Egilsstöðum en hann neitaði ávallt staðfastlega. Bar þeim hins vegar saman um hvað gerst hefði um kvöldið, þ.e. að þau hefðu hist á krá á Vopnafirði og farið saman í káetu mannsins síðar um kvöldið. Þau höfðu engin samskipti haft fyrir umrætt kvöld.

Konan kom á lögreglustöð í desember og sagðist hafa tilkynnt ranglega um að maðurinn hefði nauðgað sér. Konan sagðist hafa átt erfitt uppdráttar og átt við andleg vandamál að etja um langa hríð. Kvað hún þetta vera áberandi þegar hún neytti áfengis og undir áhrifum áfengis hefði hún sagt ýmislegt sem betur hefði verið ósagt. Sagðist hún engar skýringar geta gefið á þessari hegðun sinni. Hún sagðist þó aldrei hafa lagst eins lágt eins og þegar hún hefði tilkynnt um að maðurinn hefði nauðgað sér í umrætt sinn.

Maðurinn kærði konuna í kjölfarið fyrir rangar sakargiftir. Í dómi héraðsdóms kemur m.a. fram, að konan hafi átt við þunglyndi að stríða frá unglingsaldri og bíði eftir vist á áfangaheimili á vegum Akureyrarbæjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert