Ríkisendurskoðun vill lögreglurannsókn á rekstri Byrgisins

Ríkisendurskoðun hefur skilað skýrslu um fjármál Byrgisins til félagsmálaráðuneytisins.
Ríkisendurskoðun hefur skilað skýrslu um fjármál Byrgisins til félagsmálaráðuneytisins. mbl.is/Þorkell

Ríkisendurskoðun telur ekki rétt að ríkissjóður haldi áfram að veita fjármunum til starfsemi meðferðarheimilisins Byrgisins vegna alvarlegra vankanta sem verið hafa á rekstri félagsins. Telur stofnunin jafnframt eðlilegt að málinu sé vísað til embættis ríkissaksóknara til meðferðar. Fyrir liggur að stjórnendur og starfsmenn Byrgisins hafa látið Byrgið greiða einkaútgjöld sín.

Fram kemur m.a. í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Byrgið, að fyrir liggur, að fjármunir, sem sannanlega hafa runnið til stjórnenda og starfsmanna Byrgisins eru langt umfram það sem fram kemur í bókhaldi eða ársreikningum félagsins. Greiðslur sem færðar voru á launareikninga stjórnenda og annarra starfsmanna Byrgisins árið 2005 að fjárhæð 12,7 milljónir og voru greiddar þeim eða aðilum þeim tengdum eru ranglega tilgreindar í bókhaldi og ársreikningi Byrgisins en þar er launakostnaður aðeins sagður vera 5,5 milljónir. Þá liggur fyrir að þessar greiðslur hafa ekki verið taldar fram til skatts af hálfu Byrgisins.

Ríkisendurskoðun segir, að þessu til viðbótar sé svo að sjá sem stjórnendur og starfsmenn Byrgisins hafi látið bókfæra hjá félaginu og greiða útgjöld sem félaginu eru óviðkomandi og telja verði einkaútgjöld þeirra sjálfra. Slík útgjöld nemi a.m.k. 12,5 milljónum króna árið 2005 og 3,1 milljónum á tímabilinu janúar til október 2006 en gætu allt eins verið miklu hærri. Loks verði að telja að kostnaður félagsins vegna aksturs sé óeðlilega mikill með tilliti til starfseminnar.

Þá kemur fram, að stjórnendur Byrgisins eiga eftir að gera fullnægjandi grein fyrir ráðstöfun á söfnunarfé og vistgjöldum sem ekki voru færð í bókhald Byrgisins, að fjárhæð 9,6 milljónir árið 2005 og 12,7 milljónir árið 2006. Að mati Ríkisendurskoðunar er ekki að sjá að þessum fjármunum hafi verið ráðstafað í þágu Byrgisins.

Leigir bíla af félagi forstöðumannsins
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur m.a. fram, að Byrgið leigir þrjár bifreiðar af eignarhaldsfélagi Byrgisins, sem er í eigu forstöðumanns Byrgisins, og hefur félagið bifreiðarnar á rekstrarleigu. Um er að ræða tvo Land Rover Discovery af árgerð 2006, sem forstöðumaður og aðstoðarforstöðumaður Byrgisins hafa til umráða, og eina Renault Master sendibifreið af árgerð 2005 sem notuð er til að sækja vistir fyrir Byrgið. Öll útgjöld eignarhaldsfélagsins vegna þessara bifreiða eru gjaldfærð yfir á Byrgið auk þess sem Byrgið greiðir kostnað við rekstur þeirra. Tekið er fram, að bifreið forstöðumanns Byrgisins hefur verið endurnýjuð árlega.

Eignarhaldsfélagið er að auki með tvær bifreiðar á sínum vegum sem eru leigðar einstaklingum; annars vegar Land Rover Discovery sem einn starfsmanna Byrgisins hefur til afnota og greiðir sjálfur af og hins vegar Renault Mégane sem dóttir forstöðumanns Byrgisins hafði til afnota á árinu 2006. Að sögn forstöðumanns var bifreiðin m.a. notuð til skólaaksturs.

Ætlast er til þess að afborganir af þeirri bifreið séu dregnar af launum forstöðumannsins samkvæmt munnlegum samningi en Ríkisendurskoðun segir, að þess sjáist þó engin merki í bókhaldi Byrgisins.

Ríkisendurskoðun segist ekki hafa undir höndum nauðsynleg gögn til að staðfesta kostnað Byrgisins vegna viðkomandi bifreiðar. Þó sé ljóst að kostnaðurinn nemur a.m.k. 500 þúsund krónum árið 2006.

Í skýrslunni kemur fram, að fjármálaumsýslu og bókhaldi Byrgisins sé verulega ábótavant, m.a. vegna þess að innheimtar tekjur hafi ekki verið bókaðar og kostnaður sé færður til gjalda án fullnægjandi fylgiskjala, kostnaður sé ranglega bókfærður eða afar hæpið að hann tilheyri starfsemi Byrgisins. Í mörgum tilvikum vanti frumrit viðkomandi fylgiskjals, útgjöld séu tvíbókuð eða færð á ranga reikningslykla og einkaútgjöldum starfsmanna oft blandað saman við rekstur félagsins.

24 farsímar keyptir
Kostnaður vegna reksturs áhalda og tækja nam alls um 3 milljónum króna á árinu 2005. Þar eru kaup á ýmiss konar raftækjum og tölvubúnaði fyrirferðarmest eða 2,4 milljónir. Ríkisendurskoðun segir, að hluta þessara útgjalda sé ekki hægt að staðfesta þar sem gild fylgiskjöl liggi ekki fyrir. Á fyrstu tíu mánuðum ársins 2006 nam kostnaður vegna reksturs áhalda og tækja um 790 þúsund krónum, þar af vegna kaupa á raftækjum og tölvubúnaði að andvirði 650 þúsund króna.

Stjórnendur Byrgisins voru spurðir um kaup á fjölda farsíma, en á árinu 2005 voru keyptir a.m.k. 15 farsímar fyrir um 350 þúsund krónur og a.m.k. níu á fyrstu tíu mánuðum ársins 2006 fyrir um 320 þúsund. Kváðu þeir algengt að farsímar starfsmanna að Efri-Brú hverfi og því nauðsynlegt að endurnýja farsímana reglulega.

Skrá er ekki til yfir húsgögn, áhöld og aðra lausafjármuni Byrgisins. Við athugun Ríkisendurskoðunar var hægt að staðfesta að rúmur helmingur áhalda og tækja, sem keypt voru árin 2005 og 2006, var til staðar. Það sem upp á vantar hafði að sögn stjórnenda ýmist verið gefið skjólstæðingum þegar dvöl þeirra lauk, skemmst eða þeir gátu ekki í fljótu bragði sagt til um með vissu hvar væri niðurkomið.

Skýrslan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert