Reglur um inntöku og skilyrði manna til vistunar á Vernd verði endurskoðaðar

Allar reglur um inntöku og skilyrði manna til vistunar á áfangaheimili Verndar verða endurskoðar ef ástæða þykir til, en þetta kemur fram í ályktun sem stjórn Verndar samþykkti í kvöld.

Í ályktuninni kemur farm að þjónustusamningur milli Verndar og Fangelsismálastofnunar ríkisins sé nú þegar í endurskoðun og muni verða skoðaður sérstaklega í ljósi í máls er varðar dæmdan barnaníðing sem hafði samband við börn er hann dvaldi á heimilinu.

Ályktunin er annars eftirfarandi:

„Stjórn Fangahjálparinnar Verndar hefur fjallað um málefni áfangaheimilis samtakanna í ljósi umræðu síðustu daga.

Stjórn Verndar gerir sér fulla grein fyrir alvöru málsins og er mjög brugðið. Hún telur því mjög mikilvægt að fara ítarlega yfir alla helstu þætti þess til að átta sig á því hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis í vinnslu þess.

Fangahjálpin Vernd hefur starfað í tæpa hálfa öld og rekið áfangaheimili frá upphafi. Það hefur verið leiðarljós samtakanna að allt samfélagið hefði hag af því að brotamenn næðu sem fyrst að aðlagast venjulegu lífi utan fangelsis. Áfangaheimili Verndar hefur verið þar lykiláfangi í vegferð þeirra sem hrasað hafa á hinni beinu braut.

Fangahjálpin Vernd vonar að vinsamlegt viðmót nágranna áfangaheimilisins dofni ekki þótt skugga hafi verið varpað á heimilið um þessar mundir. Áfangaheimilið hefur notið einstaklega góðs skilnings nágranna heimilisins og annarra er styðja vilja jákvæð samfélagsleg úrræði til að gera menn að nýtum þegnum samfélagsins.

Stjórn Verndar hefur ákveðið að ræða strax við Fangelsismálastofnun ríkisins um hvort þörf sé á að styrkja úrræðið og ef hægt er þá hvernig til þess að girða fyrir að menn sem eru að ljúka afplánun á áfangaheimilinu gerist brotlegir við landslög meðan þeir dvelja þar. Á það skal bent að á undanförnum árum hafa um 90% vistmanna staðist öll skilyrði sem þeim eru sett fyrir búsetu á áfangaheimilinu. Þau 10% sem ekki standast skilyrðin brjóta flest húsreglur Verndar en ekki landslög.

Áfangaheimili Verndar er áfangaheimili en ekki fangelsi.

Þjónustusamningur milli Verndar og Fangelsismálastofnunar ríkisins er nú þegar í endurskoðun og mun verða skoðaður sérstaklega í ljósi umrædds máls.

Jafnframt verða allar reglur um inntöku og skilyrði manna til vistunar á áfangaheimili Verndar endurskoðaðar ef ástæða þykir til.“

Samþykkt stjórnar Verndar 23. janúar 2007

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert