Fjölgar á vitnalista í Baugsmáli

Verjendur í Baugsmáli ásamt gögnum, sem lögð voru fram í …
Verjendur í Baugsmáli ásamt gögnum, sem lögð voru fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Brynjar Gauti

Fyrirtaka var í Baugsmálinu svonefnda í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun en þar lögðu verjendur sakborninga fram gögn í sjö möppum, einkum álitsgerðir. Einnig lagði ákæruvaldið fram gögn og lista yfir fimm vitni, sem það vill bæta á vitnalista í málinu. Fram kom að til stendur að kalla 120 vitni fyrir dóminn þegar aðalmeðferð hefst í málinu um miðjan febrúar.

Verjendur sakborninga lögðu í morgun fram gögn í sjö möppum, einkum álitsgerðir, þar sem fjallað er um ákæruliði 10-19 í ákærunni. Í fyrirtökunni gerði Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari í málinu, athugasemdir við að verið væri að leggja fram svo viðamikil gögn svo seint í málinu. Sagði Sigurður Tómas, að í raun væri verið að búa til leið til að leiða sérfræðivitni fyrir dóminn.

Ákæruvaldið lagði fram lista yfir 5 vitni, núverandi og fyrrverandi starfsmenn Baugs Group. Þá voru einnig lögð fram svör Árna Tómassonar, endurskoðanda, við tilteknum spurningum ákæruvaldsins. Loks var lagðar fram spurningar til Kauphallar Íslands ásamt svörum um ferla við tilkynningar til Kauphallar.

Arngrímur Ísberg, héraðsdómari, sagði að dómendur hefðu rætt um þann mikla vitnafjölda, sem er í málinu, en tók fram að dómendur treystu sér ekki til að ákveða fyrirfram hvort og þá hvaða vitni kynnu að vera óþörf. Hann sagðist þó vita fullvel, að vitni hefðu komið fram í málinu sem í raun hefðu ekkert haft að segja.

Í málinu eru ákærðir Jón Ásgeir Jóhannesson, Tryggvi Jónsson og Jón Gerald Sullenberger.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert