Siglingaleiðir enn varasamar við Vestfirði sökum íss

Ísdreifar eru víða við Vestfirðina og einkum og sér í lagi í Dýrafirði, en á föstudag rak ísspöng að landi sem fór nær öll inn í fjörðinn. Landhelgisgæslan hefur bent á að fjörðurinn sé ófær litlum bátum af þessum sökum, sem og nærliggjandi firðir enda ísinn dreifður og lúmsk hætta fyrir hendi. Vænta má hafísspár síðar í dag.

Gæslan flaug könnunarflug yfir Vestfirðina í gær en megintilgangurinn var að kanna hversu austarlega ísinn væri kominn, þ.e. hvort hann væri farinn að fara suður með ströndum og inn á Húnaflóa. Það hefur þó ekki farið svo, en ekki hefur verið útilokað að það geti gerst.

Með Gæslunni í för var Ingibjörg Jónsdóttir, landfræðingur og dósent, sem vinnur að hafísrannsóknum við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Hún sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að siglingaleiðin fyrir Horn sé fær. Í Ísafjarðardjúpi hefði mátt sjá ís, en Ingibjörg bendir á að ekki hafi sést mikið af honum þar auk þess sem hann sé ört bráðnandi. Ísdreifar hefðu sést Súgandafirði og Önundarfirði, en Dýrafjörðurinn hafi hinsvegar skorið sig úr hvað þetta varðar.

Óvenjulegt hvernig einn fjörður hefur fyllst af ís

Ingibjörg segir að sér þyki sérstakt hvernig einn fjörður getur fyllst af ís á meðan lítið sem ekkert sé í fjörðunum í kring. Það geti hinsvegar gerst svona auðveldlega. „Það sem er svolítið sérstakt við þetta núna er hvað hann er mikið að fara á firðina sunnan við Ísafjarðardjúp. […] Það er frekar óvenjulegt,“ segir Ingibjörg. „Þegar við fáum þessar suðvestanáttir þá fer hann framan á Vestfirðina, en það er miklu algengara - eins og gerðist t.a.m. 2005 þegar líka voru suðvestlægar áttir og mun lengur - þá dreifðist meira úr ísnum norðan við landið og svo þurfti að koma norðanátt til þess að steypa honum í átt að landinu,“ segir hún. Því sé heldur óvanalegt að aðalbreiddin á ísnum sé að finna sunnar. Hann er hinsvegar ekki mjög þéttur í sér. „Það er ekki mikill ís í Grænlandssundi, en hann hefur náð að brotna upp í öldugangi. Þá dreifist betur úr honum og hann fer hraðar yfir, og þá nær hann að koma svona hratt upp að landinu.“

Ingibjörg segir að það sé varasamt að sigla um Vestfirðina, þó sérstaklega fyrir litla báta. Á meðan suðvestanáttin sé ríkjandi þá reki ís enn að landi. „Ég myndi segja að næstu daga sé full ástæða til þess að vera á varðbergi.“ Samkvæmt veðurspá má búast við áframhaldandi suðvestlægum áttum út vikuna. Hættan sé lúmsk þegar ísinn sé svona dreifður. Auk þess varar Ingibjörg við því að fólk sé að skoða ísinn í Dýrafirði í of miklu návígi. Hætt sé við að fólk geti runnið á ísnum, hann snúist og fólk geti dottið á milli jakanna.

Unnið að gerð hafísspár

Siglingastofnun Íslands ásamt Háskóla Íslands og Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen (VST) vinna nú sameiginlega að gerð hafísspár sem birt verður síðar í dag. Ingibjörg bendir á að um tilraunastarfssemi sé að ræða en þá er sjávarfallalíkan Siglingastofnunar ásamt veðurgögnum notuð til að spá fyrir um hvernig ísrekið ætti að dreifast. Aðspurð segir hún að hafísspá hafi verið gerð árið 2005 sem hafi komið vel út. Auk Ingibjargar vinna þau Ólöf Rós Káradóttir, hjá VST, og Gísli Viggósson, hjá Siglingastofnun, að gerð hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert