Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á yfir 30.000 steratöflur

Sterar.
Sterar. mbl.is/Árni Torfason

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á rúmlega 30.000 steratöflur í lögregluaðgerð í gær. Að sögn Ásgeirs Karlssonar, yfirmanns fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, er þetta eitt mesta magn sterataflna sem lagt hefur verið hald í Reykjavík.

Að sögn Ásgeirs var maður á fimmtugsaldri handtekinn í tengslum við málið, en gerð var húsleit hjá honum í gær sem og víðar. Hann var yfirheyrður og var honum sleppt að þeim loknum.

„Þessar töflur eru stórhættulegar og það er vitað mál að menn verða ofbeldishneigðari ef þeir eru að nota þessar töflur og áfengi með. Þetta fer oft illa í menn,“ segir Ásgeir í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Ásgeir vildi ekki upplýsa hvaðan töflurnar koma en málið er í rannsókn. Hann vill ekki meina að steranotkun sé að aukast en hinsvegar sé ljóst að aldrei hefur jafnmikið magn af efninu náðst í einu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert