orsi@mbl.is
RÉTT um það leyti sem nýr formaður Kraftlyftingasambands Íslands var kjörinn á föstudag, Jóhanna Eiríksdóttir, sem er jafnframt er fyrsta konan í formannssæti KRAFT, reið áfall yfir nýja stjórn sambandsins með því að fyrrverandi formaður þess var handtekinn með 30 þúsund steratöflur. Nýja ímynd þarf að byggja upp, að mati Jóhönnu, og verður það verkefni nýrrar stjórnar.
Að sögn Ásgeirs Karlssonar, yfirmanns fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem stjórnar rannsókn málsins, var um að ræða eitt mesta magn sterataflna sem lagt hefur verið hald á í Reykjavík. Hinum handtekna hefur verið sleppt að loknum yfirheyrslum.
"Þessar töflur eru stórhættulegar og það er vitað mál að menn verða ofbeldishneigðari ef þeir nota þessar töflur og áfengi með. Þetta fer oft illa í menn," segir Ásgeir.
Jóhanna Eiríksdóttir segir málið í heild koma sér mjög á óvart. Þegar málið komst í hámæli var stjórnin kölluð saman, á laugardag. "Við vitum að steranotkun er því miður útbreidd víða en þetta hefur loðað meira við kraftlyftingamenn vegna þess að það fer meira fyrir þeim," segir hún. "Ég mæli þessu alls ekki bót og við viljum bæta ímynd KRAFTS. Fyrsta skrefið var að kjósa fyrsta kvenformann sambandsins og jafnframt höfum við sett á laggirnar nefnd sem mun fjalla um möguleika okkar á samstarfi við ÍSÍ." Í umræddri nefnd situr læknir, að sögn Jóhönnu.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.