Starfsmaður CCP ávíttur fyrir að brjóta af sér í Eve Online

Persóna úr EveOnline.
Persóna úr EveOnline. mbl.is

Starfsmaður íslenska fyrirtækisins CCP, sem gerir út tölvuleikinn EveOnline, er sagður hafa „blandað sér í leikinn", þ.e. tekið þátt í netleiknum EveOnline sem CCP rekur. Nú er búið að eyða reikningi þessa starfsmanns, eftir að í ljós kom hver var á ferð. Þetta kemur fram á leikjavefsíðunni Blue´s News. CCP segir að búið sé að ávíta starfsmann fyrir slíkt brot.

Þar er einnig sagt frá því að starfsmaður hafi lekið út upplýsingum um það sem væntanlegt væri í leiknum, ákveðinn "söguhluta" eins og það er kallað. Hert eftirlit sé nú með því hvort starfsmenn séu að taka þátt í leiknum. Vitnað er í spjallþráð um málið þar sem því er haldið fram að starfsmenn „beini dýrmætum hlutum í leiknum til hópa sem þeir eru meðlimir í".

Hilmar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, segir eitt mál hafa komið upp hjá fyrirtækinu síðasta sumar þar sem starfsmaður tók þátt í leiknum með óleyfilegum hætti. Hann hafi verið ávíttur fyrir. Tvö önnur tilfelli hafi komið upp fyrr á árum og í þeim tilvikum hafi hlutaðeigandi verði vísað úr starfi án tafar. „Þetta var ekki stórvægilegt brot í efnahagslegu samhengi. Viðbrögð fólks við þessu endurspegla hversu raunverulegur eve heimurinn er í hugum leikmanna," segir Hilmar.

Hilmar segir þetta ákveðna áskorun, að takast á við vandamálið gagnvart leikmönnum og útskýra að þetta sé ekki stórmál í efnahagslegu samhengi, þó að það sé alltaf alvarlegt mál þegar „opinberir starfsmenn” hafi ekki rétt við. Umræddur starfsmaður hafi ekki hagnast í raunveruleikanum á þessu broti heldur aðeins í sýndarveruleikanum. Hilmar segir ekki fót fyrir því að starfsmaðurinn hafi lekið út upplýsingum um væntanlegan söguhluta leiksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert