Stefnt að víðtækri þjóðarsátt um nýtingu auðlindanna

eftir Sigrúnu Birnu Birnisdóttur

sibb@mbl.is

JÓN Sigurðsson iðnaðarráðherra mælir í dag á Alþingi fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Með frumvarpinu vilja stjórnvöld skapa heildstæða verndar- og nýtingaráætlun fyrir auðlindir í jörðu og vatnsafl á Íslandi.

Iðnaðarráðherra og Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra kynntu frumvarpið fyrir blaðamönnum í gær og sögðu við það tækifæri að með því væri leitast við að leggja grunn að sátt milli sjónarmiða verndar og nýtingar og að frumvarpið markaði því þáttaskil í umdeildum málum, sem vörðuðu alla þjóðina.

Í frumvarpinu er m.a. kveðið á um að úthlutun leyfa til rannsókna og nýtingar færist frá iðnaðarráðherra til Orkustofnunar og verklagsreglur verða lögfestar um það hvernig staðið skuli að afgreiðslu og vali milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi.

Iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra munu einnig hvor um sig skipa sérstaka og sambærilega starfshópa til að móta sérstakar nýtingar- og verndaráætlanir fyrir auðlindir í jörðu og vatnsafl. Gert er ráð fyrir að báðir starfshóparnir skili tillögum sínum í formi lagafrumvarps til forsætisráðherra og hann muni skipa sérstakan starfshóp sem hafi það hlutverk að samræma tillögur hópanna í eitt lagafrumvarp um verndar- og nýtingaráætlun sem lagt verði fram á haustþingi 2010.

Getur rekist á við eignarréttarákvæði

Umhverfisráðherra sagði á fundinum í gær að þar sem lögin tækju einnig til jarða í einkaeign væri hugsanlegt að upp kæmu álitamál í tengslum við slíka verndaráætlun enda snerti hún eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og ráðstöfunarrétt eigenda á jörðum sínum. "Stjórnarskrárákvæði eru hins vegar ekki einhlít og þar er að finna heimildir fyrir því að setja almennar takmarkanir á nýtingu eignarlands sé það sama látið yfir alla ganga," sagði hún.

Á fundinum kynnti umhverfisráðherra einnig frumvarp til laga um meginreglur umhverfisréttar sem ætlað er að stuðla að sjálfbærri þróun og nýtingu umhverfis, samþættingu umhverfissjónarmiða við önnur sjónarmið og að draga úr umhverfisáhrifum, með hag núlifandi og komandi kynslóða að leiðarljósi.

Sagði ráðherra að mikilvægt væri að setja slíkar meginreglur vegna sérstöðu málaflokksins og þess að þær ákvarðanir sem hefðu áhrif á umhverfið væru undirbúnar og teknar af mörgum stjórnvöldum.

Í hnotskurn
» Mælt verður í dag fyrir frumvörpum um breytingar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum.
» Með þeim vilja stjórnvöld skapa heildstæða verndar- og nýtingaráætlun fyrir auðlindir í jörðu og vatnsafl.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert