Ætla má að um 20% af fornleifum í landinu hafi verið skráð

Ef gert er ráð fyrir að fornleifar í landinu séu 200.000 talsins hafa einungis tæp 20% þeirra verið skráð. Þetta kemur fram í svari menntamálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi. Afar misjafnt er eftir sveitarfélögum hversu mikið hefur verið skráð. Sum hafa nær lokið skráningu og í öðrum hefur engin skráning farið fram.

Í svarinu, sem er við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns VG, kemur fram að alls hafi verið skráðar um það bil 38.400 fornleifar á landinu öllu. Þessari tölu beri þó að taka með ákveðnum fyrirvara þar sem vegna fjölda gagnagrunna sé líklegt að einhverjar fornleifar hafi verið tví- og jafnvel þrískráðar.

Í svarinu segir, að áætlanir geri ráð fyrir að allt frá 150.000 upp í 250.000 fornleifar séu á landinu. Hægt sé að komast nærri fjölda ákveðinna tegunda fornleifa eins og til dæmis minningarmarka, þ.e. legsteina, girðinga og umbúnaðar leiða, í kirkjugörðum. Um það bil 260 kirkjugarðar séu þekktir í landinu. Að meðaltali eru um 10 minningarmörk í hverjum garði sem eru eldri en 100 ára og enn til staðar í görðunum. Því megi ætla að fornleifar af þessari gerð einni séu u.þ.b. 2600 talsins.

Fornleifavernd hefur látið skrá öll minningarmörk í Hólavallagarði, bæði þau sem eru 100 ára og eldri og eins yngri minningarmörk. Fyrir nokkrum árum hafði Þjóðminjasafn Íslands látið skrá öll minningarmörk sem voru á þeim tímapunkti eldri en 100 ára og voru þau 223. Það sem Fornleifavernd hefur af minningarmörkum og gerðum reyndust vera 7465 minjar og eru þá meðtalin 223 minningarmörk sem skráð voru af Þjóðminjasafninu.

Svarið í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert